FBI gerir húsleit á einkaeyju Epsteins

Jeffrey Epstein. FBI hefur nú framkvæmt leit á einkaeyju hans …
Jeffrey Epstein. FBI hefur nú framkvæmt leit á einkaeyju hans í Karíbahafinu. AFP

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur hafið rannsókn á húseignum á eyju í Karíbahafinu sem var í einkaeigu fjárfestisins og barnaníðingsins Jeffrey Epstein, sem svipti sig lífi í fangaklefa sínum á Manhattan um helgina.

Guardian greinir frá þessu og hefur eftir sérfræðingum að dauði Epsteins kunni að fækka lagadeilum vegna rannsóknar FBI. Rannsóknin á eyjunni sé enn fremur til vitnis um að rannsókn á meintum mansalsbrotum Epsteins verði ekki hætt.

NBC-sjónvarpsstöðin hefur birt myndir af lögreglumönnum mæta á eyjuna Little Saint James, sem er hluti af Bandarísku-Jómfrúreyjum í gærmorgun.

Staðfestu tveir hátt settir lögreglumenn í samtali við sjónvarpsstöðina að leit væri hafin.

Eftir að fregnir bárust af láti Epsteins hafa fórnarlömb hans látið í ljós reiði yfir að hann þurfi ekki að svara til saka og hafa leitað fullvissu yfirvalda um að málið verði ekki látið falla niður. Aðrir kunni að hafa átt aðild að mansali á ungum stúlkum sem voru kynferðislega misnotaðar.

William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að samsærismenn Epsteins ættu ekki telja sig sloppna. Fórnarlömbin eigi skilið réttlæti og það muni þau fá. 

Lögfræðingurinn David Weinstein, sem sérhæfir sig í vörn hvítflibbaglæpa, sagði Guardian að dauði Epstein kunni að einfalda mál fyrir FBI og það geti útskýrt tímasetningu á leitinni nú.

„Þetta eru sönnunargögn sem tekin eru beint frá honum og sá eini sem getur dregið réttmæti þeirra í efa er Epstein eða einhver sem bjó með honum,“ sagði Weinstein. „Nú þegar hann er látinn þá getur hann ekki véfengt það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert