Hundruðum flugferða frá Hong Kong aflýst

Hundruðum flugferða frá alþjóðaflugvellinum í Hong Kong hefur verið aflýst í dag og eru þúsundir farþega strandaglópar á flugvellinum. Öllu flugi frá flugvellinum var aflýst í gær eftir að þúsundir mótmælenda söfnuðust saman þar. Opnað var á ný fyrir umferð um flugvöllinn í dag, en líkt og áður sagði hefur hundruðum flugferða verið aflýst.

Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong, hefur varað við að ofbeldi tengt mótmælunum kunni að koma Hong Kong á leið sem ekki verði af snúið.

Guardian segir búist við áframhaldandi mótmælum í dag.

Á fundi með fjölmiðlum í dag sagði Lam: „Ofbeldi, hvort sem það er að beita ofbeldi eða láta það viðgangast, mun ýta Hong Kong á leið sem ekki verður af snúið.“ Sagði Lam slíka stöðu geta reynst samfélaginu hættulega og ástæða sé til að hafa áhyggjur af þróun mála. „Ástandið í Hong Kong undanfarna viku hefur vakið með mér áhyggjur af að við séum komin á þann stað,“ bætti hún við. 

Kínverska Cathay Pacific-flugfélagið greindi frá því að það hafi aflýst yfir 200 flugferðum frá Hong Kong og dagblaðið South China Morning Post segir mega búast við því að yfir 300 flugferðum verði aflýst.

Mótmælin á flugvellinum, sem nú eru á sínum fimmta degi, hafa farið friðsamlega fram og segir Guardian því ekki ljóst hvað hafi orðið til þess að forsvarsmenn flugvallarins gripu til þess ráðs að aflýsa öllu flugi um hann í gær.

Til átaka hefur hins vegar komið með lögreglu og mótmælendum annars staðar í Hong Kong í mótmælunum sem nú hafa staðið yfir í á tíundu viku og hefur lögregla m.a. beitt táragasi, kylfum og gúmmíkúlum.

Mótmælendur í setuverkfalli á alþjóðaflugvellinum í Hong Kong í gær.
Mótmælendur í setuverkfalli á alþjóðaflugvellinum í Hong Kong í gær. AFP
mbl.is