Lyfjatilraunir gegn ebólu lofa góðu

Stúlka í landamæraborginni Goma í Lýðveldinu Kongó er bólusett gegn …
Stúlka í landamæraborginni Goma í Lýðveldinu Kongó er bólusett gegn ebólu. AFP

Tvö ný lyf gegn ebólu-veirunni lofa góðu og kann veiran því brátt að reynast læknanleg. BBC hefur eftir vísindamönnum að tilraunir með lyfin sem hafa verið gerðar í ebólu-faraldrinum í Lýðveldinu Kongó bendi til þess að þeir sem hafa fengið tilraunalyfin eigi betri möguleika á að lifa veiruna af.

Tilraunir hafa verið gerðar með fjögur lyf í ebólu-faraldrinum og lofa tvö þeirra, líkt og áður sagði, góðu. Benda rannsóknir raunar til að hægt sé að lækna rúm 90% þeirra sem sýkjast af veirunni með lyfjunum, sé náð til þeirra snemma.

Hafa heilbrigðisyfirvöld í Lýðveldinu Kongó nú lýst því yfir að nýju lyfin verði notuð til að meðhöndla alla sem greinast með ebólu. Yfir 1.800 manns hafa látist af völdum ebólu í Kongó sl. ár.

Bandaríska smitsjúkdóma- og ofnæmisstofnunin NIAID (National Institute of Allergy and Infectious Diseases), sem tók þátt í að fjármagna tilraunina, segir niðurstöðurnar vera „mjög góðar fréttir“ í baráttunni gegn ebólu.

Lyfin tvö, REGN-EB3 og mAb114, ráðast gegn ebóla-veirunni með mótefnum og draga þannig úr áhrifum veirunnar á frumur mannslíkamans. Þau voru þróuð með því að nota mótefni sem fengið var frá fólki sem lifað hafði veiruna af.

Dr. Anthony Fauci, forstjóri NIAID, segir þetta vera „fyrstu lyfin sem vísindalega örugg rannsókn hafi sýnt fram á hreina rýrnun í dánartíðni“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert