Öllu flugi um Hong Kong-flugvöll aflýst

Ferðamaður lætur öryggisverði fá tösku sína er hún reynir að …
Ferðamaður lætur öryggisverði fá tösku sína er hún reynir að komast í gegnum öngþveitið í brottfararsalnum í dag. Öllu flugi um flugvöllinn hefur verið aflýst annan daginn í röð. AFP

Flugumferð um alþjóðaflugvöllinn í Hong Kong hefur nú verið aflýst annan daginn í röð vegna mótmæla. Greint var frá því fyrr í morgun að hundruðum flugferða hefði verið aflýst, eftir að opnað var á ný fyrir umferð um völlinn í morgun.

BBC segir myndbönd sem birt hafa verið á samfélagsmiðlum í dag sýna farþega eiga í erfiðleikum með að komast leiðar sinnar í gegnum þvögu mótmælenda í brottfararsal flugvallarins.

Þúsund­ir mót­mæl­enda söfnuðust sam­an á flugvellinum í gær. 

„Verulegar truflanir hafa orðið á flugi um alþjóðaflugvöllinn í Hong Kong vegna samkomu almennings á flugvellinum í dag,“ sagði í yfirlýsingu frá flugvallaryfirvöldum. 

Carrie Lam, rík­is­stjóri Hong Kong, hef­ur varað við að of­beldi tengt mót­mæl­un­um kunni að koma Hong Kong á leið sem ekki verði af snúið.

Á fundi með fjöl­miðlum í dag sagði Lam: „Of­beldi, hvort sem það er að beita of­beldi eða láta það viðgang­ast, mun ýta Hong Kong á leið sem ekki verður af snúið.“ Sagði Lam slíka stöðu geta reynst sam­fé­lag­inu hættu­lega og ástæða sé til að hafa áhyggj­ur af þróun mála. „Ástandið í Hong Kong und­an­farna viku hef­ur vakið með mér áhyggj­ur af að við séum kom­in á þann stað,“ bætti hún við.                             

Mót­mæl­in á flug­vell­in­um, sem nú eru á sín­um fimmta degi, hafa farið friðsam­lega fram.

Til átaka hef­ur hins veg­ar komið með lög­reglu og mót­mæl­end­um ann­ars staðar í Hong Kong í mót­mæl­un­um sem nú hafa staðið yfir í á tí­undu viku og hef­ur lög­regla m.a. beitt tára­gasi, kylf­um og gúmmí­kúl­um.

mbl.is