Réðst á vegfarendur í Sydney

Lögregla var með mikinn viðbúnað í miðborg Sydney eftir að …
Lögregla var með mikinn viðbúnað í miðborg Sydney eftir að maður stakk konu og reyndi að ráðast gegn fleiri vegfarendum. AFP

Vopnaður maður, sem stakk konu í miðborg Sydney í Ástralíu í dag, hefur verið handtekinn. BBC segir almenna borgara hafa handsamað manninn eftir árásina og haldið honum þar til lögregla kom á staðinn.

Önnur kona fannst látin í íbúðarhúsi við sömu götu, en lögregla segir enn ekki vera ljóst hvort tengsl séu þar á milli.

Að sögn lögreglu reyndi maðurinn að stinga fleiri og því sé um fleiri en einn glæpavettvang að ræða. Á myndbandsupptökum af atvikinu sést maðurinn hrópa „Allahu Akbar“ og „skjótið mig“. Þá sést hann hoppa upp á bíl og sveifla um sig hnífi á meðan annar maður ræðst til atlögu gegn honum vopnaður tágastól.

Atvikið átti sér stað um tvöleytið síðdegis að staðartíma á fjölmennum stað í miðborginni.

Konan sem fyrir árásinni varð var flutt á sjúkrahús og er ástand hennar sagt vera stöðugt.

BBC hefur eftir lögreglu að ekki sé talin hætta á frekari aðgerðum og rannsókn sé nú í gangi vegna líksins sem fannst í íbúðinni og hvort tengsl séu þarna á milli.

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, sagði á Twitter í dag að „ofbeldisfull árásin“ væri „mikið áhyggjuefni“.

Gavin Wood, aðstoðaryfirlögregluþjónn í New South Wales, segir ástæður árásarinnar ekki liggja fyrir. „Á þessu stigi lítur út fyrir að um tilefnislausa árás sé að ræða, en við rannsökum málið með opnum huga,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert