Auglýsingar bannaðar vegna staðalímynda

Auglýsing Philadelphia snýst um tvo nýja feður með börn sín, …
Auglýsing Philadelphia snýst um tvo nýja feður með börn sín, sem eiga í fullu fangi með að sjá um afkvæmin og gleyma þeim á færibandi. Skjáskot

Fyrstu auglýsingarnar hafa verið bannaðar undir nýlegri reglugerð bresku auglýsingaeftirlitsstofunnar ASA sem ætlað er að draga úr staðalímyndum kynjanna. Um er að ræða tvær auglýsingar, aðra úr smiðjum Volkswagen og hina úr smiðjum smurostsframleiðandans Philadelphia, en hvor um sig er talin sýna neikvæða staðalímynd.

Í auglýsingu Volkswagen fyrir rafmagnsbíl af gerðinni Golf má sjá karla í ævintýralegum aðstæðum en konu sem sefur og aðra sem situr á bekk, við hlið barnavagns, við umferðargötu þar sem Golf-bifreiðin ekur hjá.

Auglýsing Philadelphia snýst svo um tvo karlmenn, nýja feður með börn sín, sem eiga í fullu fangi með að sjá um afkvæmin og gleyma þeim á færibandi. Svo góður er smurosturinn.

Auglýsingarnar tvær þykja ýta undir skaðlegar staðalímyndir kynjanna og voru því bannaðar. 

Gagnrýnendur segja það hins vegar varhugavert að ASA taki sér hlutverk siðferðiseftirlits og að bann auglýsinganna tveggja, sem sýni varla skaðlegar staðalímyndir, séu til marks um að stofan sé ekki í takti við samfélagið.

mbl.is