Fundu mannhæðarháa mörgæsategund

Tölvumyndin sýnir að mörgæsin var á hæð við manneskju.
Tölvumyndin sýnir að mörgæsin var á hæð við manneskju. Tölvumynd/Canterbury Museum

Leifar risamörgæsar á stærð við manneskju hafa fundist á Nýja-Sjálandi. Steingerð bein mörgæsarinnar eru af dýri sem talið er hafa verið um 160 cm á hæð og kann að hafa vegið allt að 80 kg.

Mörgæsin er talin hafa verið uppi fyrir um 66-56 milljón árum.

BBC segir forsvarsmenn Canterbury-þjóðminjasafnsins í Christchurch hafa bætt risamörgæsinni á lista yfir nú útdauðar tegundir úr fánu Nýja-Sjálands, sem þegar geymir páfagauka, erni, leðurblökur og 3,6 metra háan fugl, svo nefndan moa.

„Þetta er ein stærsta mörgæsategund sem fundist hefur,“ sagði safnstjórinn Paul Scofield  í samtali við BBC og kvað búsvæði mörgæsarinnar hafa verið á suðurhveli jarðar.

Talið er að mörgæsirnar hafi orðið þetta stórar vegna þess að stór sjávarskriðdýr hurfu úr höfunum á svipuðum tíma og risaeðlurnar urðu útdauðar.

„Í um 30 milljón ár var síðan tími risamörgæsanna,“ sagði Scofield.

Mörgæs á Suðurskautslandinu. Mynd úr safni.
Mörgæs á Suðurskautslandinu. Mynd úr safni. AFP

Stærsta núlifandi mörgæsategundin er keisaramörgæsin, sem verður stærst um 120 cm að hæð.

„Við teljum dýrin hafa þróast mjög hratt á þessum tíma,“ útskýrir Scofield. „Vatnshiti við Nýja-Sjáland hentaði þeim mjög vel á þeim tíma, þegar hann var um 25°C í stað 8°C nú.“

Nýja-Sjáland var enn tengt Ástralíu á þeim tíma sem risamörgæsirnar voru uppi og Ástralía var tengd Suðurskautinu. Önnur forsöguleg mörgæs, „Crossvallia unienwillia“ hefur fundist á Suðurskautinu og eru fætur hennar taldar hafa gert hann enn heppilegri til sunds en fætur þeirra mörgæsa sem nú lifa.

mbl.is