Handtóku ungling og fundu vopnabúr

Árásarriffill og önnur vopn í skotvopnaverslun í Bandaríkjunum. Mynd úr …
Árásarriffill og önnur vopn í skotvopnaverslun í Bandaríkjunum. Mynd úr safni. AFP

Bandaríska alríkislögreglan FBI fann geymslustað með 25 skotvopnum og 10.000 byssukúlum eftir að hún handtók unglingsdreng sem lýst hafði yfir stuðningi við fjöldaskotárásir í netumræðu.

Drengurinn Justin Olsen, sem býr í Boardman í Ohio, var á mánudag kærður fyrir að ógna alríkislögreglumönnum. Sagði Olsen í spjallþræði á netinu að skjóta ætti hvern einasta alríkislögreglumann sem sæist.

Olsen, sem er 18 ára, var með rúmlega 4.000 fylgjendur á vefnum iFunny, þar sem notendur deila svonefndum „meme“-gamanmyndum.

AFP segir hann áður hafa lýst yfir stuðningi við fjöldaskotárásir og að skotmarkið væru heilsugæslustöðvar sem framkvæma þungunarrof og hópar á borð við Planned Parenthood sem styðja rétt kvenna til ákvörðunartöku yfir eigin líkama.

Leit á heimili föður Olsen leiddi síðan í ljós 15 árásarriffla og haglabyssur, 10 hálfsjálfvirk skotvopn og skot sem fundust í svefnherbergi föður hans. Þá fundu lögreglumenn einnig bakpoka og fatnað í felulitum að því er fram kemur í dómsskjölum.

Olsen viðurkenndi ummæli sín á netinu, en sagði þau „bara brandara“ og hefðu vísað til hinnar umdeildu pattstöðu sem kom upp í Waco í Texas árið 1993, þegar 76 liðsmenn sértrúarsöfnuðar létust er FBI beitti táragasi til að ráðast inn með þeim afleiðingum að mikill eldur kom upp.

mbl.is