Rannsaka dánarorsök Noru

Nora, 15 ára.
Nora, 15 ára. AFP

Malasískur meinafræðingur framkvæmdi í morgun krufningu á líki Noru Quoirin sem fannst í gær eftir að hún hvarf af hóteli fjölskyldu sinnar fyrir tæplega tveimur vikum. Harmar fjölskylda hennar „óbærilegan“ missi. 

Nakið lík hinnar 15 ára Noru fannst í þéttum regnskóginum sem umlykur hótelið eftir tíu daga leit að stúlkunni. 

Nora kom til Malasíu í fjölskyldufrí 3. ágúst og hvarf daginn eftir af Dusun-hótelinu þar sem fjölskyldan dvaldi. Fjölskylda hennar heldur að Noru, sem er með þroskahömlun, hafi verið rænt af hótelherbergi sínu, en lögregla hefur rannsakað málið sem mannshvarf fremur en mannrán. 

Lík Noru fannst um 2,5 kílómetra frá hótelinu og var flutt með þyrlu á sjúkrahús þar sem fjölskylda hennar bar kennsl á hana. 

Fjölskylda hennar sagði í yfirlýsingu að Nora væri „hjarta fjölskyldu okkar“. 

„Hún er einlægasta yndislegasta stúlkan og við elskum hana óendanlega. Grimmdin að hún hafi verið tekin frá okkur er óbærileg. Hjörtu okkar eru brostin. Við munum alltaf elska Noru okkar.“

Lík Noru fært á sjúkrahús.
Lík Noru fært á sjúkrahús. AFP

Ekki er vitað hvort lík Noru hafi borið merki um átök þegar það fannst. Lögregla útilokar ekki að um glæp sé að ræða og hafa vitni verið yfirheyrð um meintan vörubíl sem heyrðist í við hótelið að morgni dagsins sem Nora hvarf. Bindur lögregla vonir við að niðurstaða krufningar um dánarorsök varpi skýrara ljósi á málið. 

Hópur sjálfboðaliða fann lík Noru eftir ábendingu frá almenningi. Fannst það á svæði sem hafði þegar verið kembt af leitarliði. 

Fjöl­skylda Noru hef­ur sagt það nán­ast ómögu­legt að Nora hafi látið sig hverfa af sjálfs­dáðum. 

Nora fædd­ist með heil­kenni sem kall­ast holoprosencephaly og er fá­gæt rösk­un sem hef­ur áhrif á þróun heil­ans. Sam­skipta­hæfi­leik­ar Noru eru tak­markaðir og hún á erfitt með að lesa og skrifa meira en nokk­ur orð. Þá hef­ur heil­kennið einnig áhrif á jafn­vægi henn­ar og hún á erfitt með sam­hæf­ingu. 

Fjölskylda Noru á sjúkrahúsinu í gær.
Fjölskylda Noru á sjúkrahúsinu í gær. AFPmbl.is