Svíi handtekinn vegna sprengingarinnar

Töluverðar skemmdir urðu á anddyri skattstofunnar í sprengingunni.
Töluverðar skemmdir urðu á anddyri skattstofunnar í sprengingunni. AFP

Sænskur karlmaður hefur verið handtekinn grunaður um aðild að sprengingunni sem varð við skattstofuna í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Þá er Kaupmannahafnarlögreglan einnig sögð hafa lýst eftir 23 ára sænskum karlmanni í tengslum við málið.

Ítarleg rannsókn og samstarf með sænsku lögreglunni leiddi til þess að 22 ára Svíi var handtekinn í gær. Hefur danska ríkisútvarpið DR eftir Jørgen Bergen Skov hjá Kaupmannahafnarlögreglunni að hún gruni mennina um að bera ábyrgð á sprengingunni. Samkvæmt heimildum DR var maðurinn handtekinn í Malmö í gær.  

Það var á þriðjudaginn í síðustu viku sem öflug sprenging varð við aðalskrifstofur dönsku skattstofunnar í Kaupmannahöfn. Tveir voru í húsinu þegar sprengjan sprakk og varð þeim ekki meint af, en einn maður sem var stadd­ur nærri Nor­d­havn-lest­ar­stöðinni fékk í sig flís­ar og brot vegna spreng­ing­ar­inn­ar og þurfti að leita sér aðhlynn­ing­ar á slysa­deild.

Lögregla hefur áður greint frá því að ekki séu talin vera nein tengsl milli sprengjunnar við skattstofuna og sprengju sem sprakk á Nørrebro síðar í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert