Trump vill funda með Xi um Hong Kong

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping Kínaforseti á G20-fundinum í …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping Kínaforseti á G20-fundinum í Japan í lok júní. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lagt til að hann eigi „persónulegan fund“ með Xi Jinping, forseta Kína, til að ræða um þá stjórnarkreppu sem nú ríkir í Hong Kong. BBC greinir frá.

Að venju tjáði Trump sig um málið á Twitter og kvaðst hann þar ekki vera í vafa um að Xi gæti „leyst Hong Kong-vandann á mannúðlegan hátt“.

Þá tengdi hann mótmælin sem haldin hafa verið í Hong Kong við viðskiptasamning bandarískra og kínverskra stjórnvalda. „Vitanlega vill Kína semja. Látum þá vinna mannúðlega með Hong Kong áður!“ sagði forsetinn í færslu sinni.

Mótmæli hafa nú staðið yfir í Hong Kong í á tíundu viku, en kveikjan að þeim var umdeilt lagafrumvarp sem heimilaði framsal brotamanna til meginlands Kína. Ríkisstjóri Hong Kong, Carrie Lam, hefur sagt frumvarpið hafa verið afturkallað en gagnrýnendur hafa óttast að það yki ítök kínverskra stjórnvalda á Hong Kong, sem líkt og Macau hefur meiri sjálfstjórn en aðrir hlutar Kína. Þar er til íbúum til að mynda heimilt að efna til minningarstunda um atburðina á Torgi hins himneska friðar.

Spenna milli mótmælenda og lögreglu hefur farið vaxandi undanfarna daga og hefur Lam varað við að Hong Kong kunni að vera „hrint niður í hyldýpið“. Stjórnvöld í Kína hafa fordæmt mótmælendur harkalega og hafa sagt hegðan þeirra fara nærri því „að vera hryðjuverk“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert