Dæmdur í fangelsi fyrir nauðgun

Ljósmynd/Wikipedia.org

Tæplega þrítungur breskur skíðakennari hefur verið dæmdur í tíu ára fangelsi í Ástralíu fyrir að beita karl og konu grófu ofbeldi og nauðga síðan konunni.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að maðurinn, Matthew Williams, hafi ráðist á fólkið í júlí á síðasta ári þegar það var á leið fótgangandi frá öldurhúsi í bænum Jindabyne nokkru eftir miðnætti.

Williams hafði einnig verið á öldurhúsinu og elti fólkið eftir aðalgötu bæjarins. Eftir að hafa ávarpað manninn réðist Williams á hann. Við það féll maðurinn til jarðar og sparkaði Williams þá í hann þar til hann missti meðvitund.

Williams réðist þá á konuna og féll hún í jörðina. Hló hann að konunni á meðal hún reyndi að verjast honum þar til honum tókst að rota hana. Þegar hún rankaði við sér hélt Williams henni á jörðinni. Því næst kýldi hann hana og hóf að afklæða hana.

Þegar hér var komið sögu kom maðurinn til meðvitundar og tókst að kalla eftir aðstoð frá ökumanni bifreiðar. Við það flúði Williams af vettvangi. Fram kom fyrir dómi að áverkar fólksins hafi verið svo alvarlegir að lögreglan hafi talið í fyrstu að árásarmennirnir hafi verið fleiri en einn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert