Grænlendingar segjast „ekki til sölu“

Frá grænlenska bænum Kulusuk í dag. Grænlendingar segjast ekki vera …
Frá grænlenska bænum Kulusuk í dag. Grænlendingar segjast ekki vera til sölu og bregðast þar með við fréttaflutningi af meintum áhuga Bandaríkjaforseta á því að kaupa eyjuna, sem vakið hefur heimsathygli. AFP

Grænlenska utanríkisráðuneytið brást í dag við fréttaflutningi gærdagsins af meintum áhuga Trump Bandaríkjaforseta á því að kaupa eyjuna. Á Twitter-síðu ráðuneytisins kemur fram að Grænlendingar séu tilbúnir að stunda viðskipti, en séu „ekki til sölu.“

„Grænland er auðugt af auðlindum eins og jarðefnum, hreinu vatni og ís, fiskistofnum, sjávarfangi og endurnýjanlegri orku og er einnig nýr áfangastaður fyrir ævintýraferðamennsku. Við erum opin fyrir viðskiptum, en ekki til sölu,“ segir í tísti ráðuneytisins, sem vísar svo á opinbera upplýsingasíðu um ferðamennsku á Grænlandi.

Kim Kielsen, formaður grænlensku landstjórnarinnar, tjáði sig á svipuðum nótum í yfirlýsingu í dag, sagði Grænlendinga tilbúna til samstarfs við allar þjóðir, þar á meðal Bandaríkin, en sagði landið síður en svo til sölu.


Wall Street Journal greindi sem kunnugt er í gær­kvöldi frá því að Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti íhugaði að kaupa Græn­land og hefðu rætt það í fjölda skipta við ráðgjafa sína, þó í misalvarlegum tóni.

Mikið hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum í Bandaríkjunum og Danmörku í dag, en sérfræðingar hafa lýst því yfir að Danmörk gæti ekki selt Grænland, þó vilji stæði til þess.

Aaja Chemnitz Larsen, grænlenskur þingmaður á danska þjóðþinginu, segir að hún myndi segja „nei takk“ við öllum umleitunum Bandaríkjanna um kaup á Grænlandi. Hún teldi það ekki heillaspor fyrir Grænlendinga, sérstaklega sökum þess að þeir búi við öflugt velferðarkerfi, samkvæmt því sem DR greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert