Hafna friðarviðræðum við Suður-Kóreu

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, sést hér fylgjast með eldflaugaskoti í …
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, sést hér fylgjast með eldflaugaskoti í síðustu tilraunum norðurkóreska hersins. AFP

Ráðamenn í Norður-Kóreu hafa hafnað öllum frekari viðræðum við stjórnvöld í Suður-Kóreu og segja það „algjörlega um að kenna gjörðum Suður-Kóreu“. BBC segir þar vera vísað til heræfinga Suður-Kóreu, en yfirlýsingin var send í kjölfar ræðu sem Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, hélt í gær. Þar minntist hann þess er Kóreuskagi slapp undan stjórn Japana og hét Moon við það tilefni að sameina Kóreuskaga fyrir árið 2045. 

Norðurkóresk yfirvöld stóðu þess í stað í dag fyrir tveimur eldflaugatilraunaskotum, að því er suðurkóreski herinn greinir frá. Ferðuðust flaugarnar um 230 km á haf út og náðu upp í 30 km hæð og er þetta sjötta slíka tilraunaskotið á innan við mánuði. 

Í yfirlýsingu sem Norður-Kórea sendi frá sér vegna ræðu Moon var gagnrýnt að í sömu andrá og forsetinn ræddi um friðsamlegt hagkerfi og stjórn, stæði hann fyrir heræfingum. „Það hefur hann engan rétt til að gera,“ sagði í yfirlýsingunni. „Við drögum jafnvel í efa hugsanaferli hans þegar hann vísar til viðræðna milli norðurs og suðurs á sama tíma og hann er að framkvæma hernaðaratburðarás þar sem tilgangurinn er að eyða stærstum hluta herja okkar á 90 dögum.“

Líkan af eldflaugum herja Norður- og Suður-Kóreu á kóreska stríðsminjasafninu …
Líkan af eldflaugum herja Norður- og Suður-Kóreu á kóreska stríðsminjasafninu í Seoul. AFP

Norður-Kórea hefur áður lýst yfir óánægju með sameiginlegar heræfingar Suður-Kóreu og Bandaríkjanna sem nú standa yfir og segja þær brjóta gegn samkomulagi sem náðst hafi við þá Donald Trump Bandaríkjaforseta og Moon. Hafa þarlend yfirvöld áður lýst þeim sem „æfingum fyrir stríð“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert