Íbúðarhús sprakk í loft upp

Ljósmynd/Lögreglan í London, Ontario.

Tekin var ákvörðun um að rýma um eitt hundrað heimili í borginni London í Ontario-fylki í Kanada á miðvikudaginn í kjölfar þess að bifreið var ekið inn í íbúðarhús í hverfinu með þeim afleiðingum að sprenging varð þegar gasleiðsla rofnaði.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að fáeinum mínútum eftir að slökkviliðsmenn mættu á staðinn hafi húsið sprungið í loft upp. Sjónarvottur lýsti sprengingunni sem eldhnetti. Ekkert hafi verið eftir nema rústir.

„Húsið sprakk í loft upp, glerbrot þeyttust úr öðrum húsum,“ er haft eftir Tyler Bilyea sem býr í nágrenni hússins og varð vitni að sprengingunni. „Þetta var eins og eldhnöttur.“

Einn óbreyttur borgari slasaðist vegna sprengingarinnar og sex slökkviliðsmenn. Þá urðu skemmdir á húsum í nágrenninu. Enginn var í húsinu þegar sprengingin varð. Allir sem slösuðust hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi að undanskildum einum slökkviliðsmanni sem slasaðist alvarlega. Ástand hans er þó stöðugt segir í fréttinni.

Flestir íbúar húsa í hverfinu hafa fengið að snúa aftur til síns heima fyrir utan þá sem búa í þeim húsum sem liggja næst húsinu sem sprakk og urðu fyrir mestum skemmdum.

Ökumaður bifreiðarinnar, hin 23 ára gamla Daniella Alexandra Leis, hefur verið ákærð fyrir akstur undir áhrifum vímuefna og fyrir að valda líkamstjóni.

mbl.is