„Kviðristirinn“ sekur um tvö morð

Gargiulo í réttarsal í gærkvöldi.
Gargiulo í réttarsal í gærkvöldi. AFP

Bandarískur karlmaður þekktur sem „Hollywood-kviðristirinn“ hefur verið sakfelldur fyrir morð á tveimur konum. Bar leikarinn Aston Kutcher meðal annars vitni gegn Michael Gargiulo sem myrti þáverandi kærustu Kutcher. 

Saksóknarar í Los Angeles sögðu Gargiulo, 43 ára, vera „kaldrifjaðan raðmorðingja“ sem níddist á konum í skipulögðum árásum. 

Gargiulo var einnig sakfelldur fyrir morðtilraun á 26 ára konu 2008, en konan lifði árásina af og bar vitni gegn honum. 

Kutcher hafði átt stefnumót með fórnarlambi Gargiulo kvöldið sem hún var myrt og lýsti hann atburðarásinni það kvöld fyrir kviðdómi í maí. 

Árið 2001 bankaði Kutcher á hurð kærustu sinnar, hinnar 22 ára Ashley Ellerin, en enginn kom til dyra. Kutcher gerði ráð fyrir því að Ellerin hafði þá þegar farið út því hann var seinn.

Kutcher rifjaði upp að hafa gægst inn um gluggann og séð það sem hann taldi vera rauða bletti. Herbergisfélagi hennar fann lík Ellerin morguninn eftir. Hafði Ellerin verið stungin hátt í 50 sinnum með eggvopni. 

Baðst afsökunar og flúði

Gargiulo bjó í sömu byggingu og síðara fórnarlamb hans, hin 32 ára Maria Bruno, árið 2005. Ráðist var á Bruno og hún stungin til bana á meðan hún svaf. 

Árið 2008 tókst Michelle Murphy með kjafti og klóm að hrinda Gargiulo ofan af sér þegar hún vaknaði við að hann stakk hana með hníf. Murphy sagði þegar hún bar vitni gegn árásarmanninum að eftir að henni hafi tekist að sparka honum úr rúminu hafi Gargiulo sagt „fyrirgefðu“ og flúið. 

Lögmenn Gargiulo héldu því fram að engin sönnunargögn væru í morðmálunum tveimur sem staðfestu að Gargiulo væri morðinginn. Í máli Murphy voru varnirnar þær að Gargiulo hafi verið í eins konar hugrofi. 

Eftir fjögurra daga bollalegginar sakfelldi kviðdómur Gargiulo fyrir bæði morðin. Dómurinn mun nú ákveða hvort Gargiulo hafi verið með réttu ráði þegar morðin voru framin áður en honum verður dæmd refsing. 

Gargiulo er einnig sakaður um morð í Illinois-ríki árið 1993 þegar hann á að hafa myrt hina 18 ára Triciu Pacaccio, eldri systur vinar hans. Líkur leiða að því að hann verði framseldur til Illinois og verði þar saksóttur í aðskildu máli. Alls er Gargiulo talinn hafa myrt um 10 eða fleiri konur. 

Fórnarlömb Gargiulo.
Fórnarlömb Gargiulo. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert