Notaði lakið til að sálga sér

Jeffrey Epstein notaði lak í fangaklefa sínum til þess að …
Jeffrey Epstein notaði lak í fangaklefa sínum til þess að fremja sjálfsvíg. AFP

Niðurstaða krufningar á líki Jeffrey Epstein, sem fannst látinn í fangaklefa sínum á laugardaginn, er sú að Epstein hafi framið sjálfsvíg með því að hengja sig. Frá þessu er greint í bandarískum fjölmiðlum í kvöld.

New York Times hefur það eftir embættismönnum að Epstein hafi notað lak til þess að binda enda á líf sitt. Í gær var greint frá því í fjölmiðlum að bein hefðu verið brotin í hálsi Epstein, meðal annars málbeinið svokallaða sem er nærri barkakýlinu.

Í frétt New York Times kemur fram að svo virðist sem Epstein hafi bundið lakið við efri kojuna í fangaklefanum og svo beygt sig niður að gólfinu með nægilegu afli til þess að brjóta fjölda beina í hálsinum á sér, sem olli dauða hans.

Margar samsæriskenningar hafa verið á sveimi um dauða Epstein, ekki síst þar sem aðstæður hans í fangelsinu voru ekki með þeim hætti sem þær hefðu sannarlega átt að vera.

Hann var einn í klefa nóttina sem hann lést, sem hann hefði ekki átt að vera. Sömuleiðis hefði hann átt að fá eftirlitsheimsókn frá fangaverði á hálftíma fresti.

Þegar hann fannst kl. 6:30 að staðartíma á laugardagsmorgun var hins vegar ekki búið að kíkja á hann í þrjá klukkutíma, en fangaverðirnir munu hafa verið sofandi samkvæmt fregnum fjölmiðla.

Forstöðumaður Metropolitan-fangelsisins í New York hefur verið látinn víkja og tveir fangaverðir, sem áttu að fylgjast með honum, sendir í tímabundið leyfi á meðan málið er rannsakað, en alls eru fjórar alríkisrannsóknir í gangi sem miðast að því að upplýsa hvað fór úrskeiðis og gerði Epstein kleift að taka eigið líf.

Metropolitan-fangelsið í New York, þar sem Epstein sálgaði sér á …
Metropolitan-fangelsið í New York, þar sem Epstein sálgaði sér á laugardag. AFP
mbl.is