Örplast fellur með snjó á Norðurskautinu

Norðurheimskautið hefur lengi vel verið talið eitt að síðustu vígum …
Norðurheimskautið hefur lengi vel verið talið eitt að síðustu vígum óspilltrar náttúru, en auk örplastsins fundust einnig gúmmíagnir og trefjar í snjónum þar. Mynd úr safni frá Svalbarða. AFP

Jafnvel á Norðurskautinu falla örplastagnir til jarðar með snjókornunum. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem BBC greinir frá. Segja vísindamennirnir það hafa verið áfall að uppgötva hversu margar agnirnar voru — yfir 10.000 á hvern lítra af snjó. Þetta auki líkur á að við öndum að okkur örplasti með andrúmsloftinu. Heilsufarslegar afleiðingar þessa séu þó ekki ljósar. 

Norðurheimskautið hefur lengi vel verið talið eitt að síðustu vígum óspilltrar náttúru, en auk örplastsins fundust einnig gúmmíagnir og trefjar í snjónum þar.

Teymi þýskra og svissneskra vísindamanna hefur birt niðurstöðu rannsóknar sinnar á örplasti á Norðurskauti í vísindatímaritinu Science Advances. Þeir söfnuðu snjósýnum á Svalbarða og notuðu til þess einfalda aðferð, teskeið og flösku. Sýnin voru svo rannsökuð á tilraunastofum Alfred Wegener stofnunarinnar í Bremerhaven í Þýskalandi.

Meirihluti agnanna úr andrúmsloftinu 

Mun meira af menguðum ögnum greindust í snjósýnunum en vísindamennirnir höfðu átt von á. Fjöldi agnanna var svo smár að erfitt var að greina úr hverju þær væru. Meirihlutinn virðist þó vera úr náttúrulegum efnum á borð við fjölsykrum plantna og dýrafeldi. Svo voru það plastagnirnar og agnir úr gúmmídekkjum, lakki, málningu og mögulega úr trefjum gerviefna.

„Við áttum von á einhverri mengun,“ segir Dr Melanie Bergmann, sem fór fyrir rannsókninni, í samtali við BBC. „Að finna svo mikið af örplasti var hins vegar mikið áfall. Það er augljóst að meirihluti öragnanna í snjónum komu úr andrúmsloftinu.“

Vísindamennirnir söfnuðu snjósýnum á Svalbarða og rannsökuðu svo á tilraunastofu …
Vísindamennirnir söfnuðu snjósýnum á Svalbarða og rannsökuðu svo á tilraunastofu í Þýskalandi. Mynd úr safni. AFP

Hugtakið örplast er notað um þær plastagnir sem eru minni en 5 mm að þvermáli.

„Við vitum ekki hvort að plastið hefur skaðleg áhrif á heilsu manna eða ekki, en við verðum að gæta þess mun betur hvernig við komum fram við umhverfi okkar,“ bætir hún við.

Vísindamennirnir tóku einnig sýni á nokkrum stöðum í Þýskalandi og Sviss og var örplastinnihald sumra þýsku sýnanna hærra en á Norðurskautinu.

Áður hafa verið birtar rannsóknir sem sýnt hafa fram á örplast í Pýreneafjöllum og á öðrum stöðum sem áður voru taldir ósnortnir. Einnig hefur örplast fundist í Dongguan í Kína, Teheran í Íran og í frönsku höfuðborginni París.

Bera vindtúrbínur hluta ábyrgðarinnar?

Vísindamenn telja vindinn feykja örplastinu með sér, sem síðan berist langar leiðir með andrúmsloftinu. Ekki er hins vegar vitað hvaðan öll mengunin á Norðurskautinu kemur. Sumt má þó væntanlega rekja til skipa sem rekast í ísinn, en einnig eru uppi vangaveltur um að vindtúrbínur beri ábyrgð á hluta hennar.

„Þurfum við svona mikið af plastumbúðum, við verðum að spyrja okkur að þessu,“ segir Dr. Bergmann. Þurfum við allar þessar fjölliður í málninguna sem við notum? Er hægt að hanna bíldekk með öðru móti? Þetta eru allt mikilvæg mál,“ bætti hún við.

„Þetta hryggir mig virkilega,“ segir Lili starfsmaður sleðahundamiðstöðvar í Tromsö í Noregi. „Það er plast í hafísnum. Það er plast í sjónum og á ströndinni og nú er plast í snjónum. Hérna uppfrá sjáum við fegurð hans daglega og að sjá hann breytast svo mikið og mengast, það er sárt.“

mbl.is