Rændi sjálfum sér og vildi lausnargjald

AFP

Fimmtán ára gamall drengur hefur verið handtekinn í Nígeríu fyrir að hafa sett mannrán á sjálfum sér á svið til þess að krefja föður sinn um lausnargjald.

Fram kemur í frétt AFP að drengurinn hafi sett mannránið á svið í samstarfi við fjóra vini sína, sem eru á aldrinum 15-22 ára, í borginni Jos í Nígeríu. Kröfðust drengurinn og vinir hans sem nemur um 172 þúsund krónum í lausnargjald.

Við yfirheyrslur sögðust drengirnir hafa viljað kaupa sér föt. Nokkrum dögum áður en hann fékk tilkynningu um að syni hans hefði verið rænt hafði faðirinn selt bifreið sína til þess að geta greitt skólagjöld barna sinna og reikninga vegna heimilishaldsins.

Faðirinn fékk nákvæmlega þá upphæð fyrir bifreiðina sem drengirnir síðan kröfðust í lausnargjald. Hringdu þeir í föðurinn og sögðu honum að sonur hans hefði verið fluttur úr landi og yrði drepinn ef haft yrði samband við lögregluna.

Faðirinn hafði engu að síður samband við lögregluna eftir að nokkrir dagar höfðu liðið frá því að honum var tilkynnt um að syni hans hefði verið rænt. Lögreglan notaði símanúmerið sem hringt var úr til þess að hafa uppi á drengjunum.

Mannrán og krafa um lausnargjald eru algeng í Nígeríu að því er segir í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert