Segir Dani ekki geta selt Grænland

Sjálfstjórnarlögin frá 2009 kveða skýrt á um að Grænlendingar séu …
Sjálfstjórnarlögin frá 2009 kveða skýrt á um að Grænlendingar séu sínir eigin herrar. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það er af og frá að Danir geti selt Grænland. Þetta segir lektor við Grænlandsháskóla í samtali við Jyllands Posten.

Wall Street Journal greindi í gærkvöldi frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti íhugaði að kaupa Grænland. Danskir fjölmiðlar hafa fjallað um málið í morgun og segja sumir þeirra hug­mynd­ina ekki jafn fá­rán­lega og hún kunni að hljóma í fyrstu. Benti Berlingske Tidende m.a. á að Græn­land væri ein­fald­lega of mik­il­vægt og stórt til að banda­rísk stjórnvöld gætu sætt sig við að vera með heila heims­álfu í bak­g­arði sín­um sem þau hefðu enga stjórn yfir.

Rasmus Leander Nielsen, aðjúnkt við Grænlandsháskóla, segir söguna af mögulegum Grænlandskaupum Trumps hins vegar vera skrýtna sögu sem eigi sér enga stoð í veruleikanum. Jafn fáránlegt sé líka að hópar danskra stjórnmálamanna séu nú að lýsa því yfir að ekki standi til að selja Grænland.

„Danmörk getur einfaldlega ekki selt Grænland,“ segir Nielsen. Það sé að hluta til vegna fyrirkomulags sem var komið á eftir heimsstyrjöldina síðari þar sem reglur voru settar um sölu eyja sem þegar eru í byggð. Danir geti því ekki selt Grænland án aðkomu Grænlendinga sjálfra.

Sjálfstjórnarlögin frá 2009 kveði enn fremur skýrt á um að Grænlendingar séu sínir eigin herrar. „Þannig að það er skýrt nei við spurningunni um það hvort það sé Danmerkur að selja Grænland,“ bætir hann við.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Bandaríkin hafa lýst yfir áhuga á Grænlandi. Þannig bauð Harry Trum­an, þáver­andi Banda­ríkja­for­seti, Dön­um eitt hundrað millj­ón­ir Banda­ríkja­dala fyr­ir Græn­land árið 1946 en Dan­ir neituðu að selja. Var það önn­ur til­raun Banda­ríkj­anna til þess að eign­ast landið, en árið 1867 hafði ut­an­rík­is­ráðuneytið banda­ríska einnig sent fyr­ir­spurn til Dan­merk­ur um kaup á Græn­landi. Þá átti Ísland raun­ar að fylgja með í kaup­un­um líka, en ekk­ert varð af því.

mbl.is

Bloggað um fréttina