Blóm og kransar frá Asíu til El Paso

Um 700 manns mættu í minningarathöfn um Margie Reckard í …
Um 700 manns mættu í minningarathöfn um Margie Reckard í gær, en hún var myrt í hryðjuverkaárásinni í El Paso 3. ágúst. AFP

Margmenni var í gær við minningarathöfn eins fórnarlambs árásarinnar í El Paso, hinnar 63 ára gömlu Margie Reckard. Þó þekkti nær enginn þeirra sem mættu konuna nema eiginmaður hennar.

Eftir að Reckard lést í hryðjuverkaárásinni 3. ágúst síðastliðinn, sá eiginmaður hennar, Antonio Basco, fram á að hann þyrfti að grafa hana einn, þar sem hann sjálfur á enga fjölskyldu og þau tvö virðast ekki hafa átt marga að, almennt.

Hann bað því útfararstofuna um að auglýsa jarðarförina opinberlega.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Yfir 700 manns mættu að minningarathöfninni. 10.000 manns sendu samúðarskeyti og yfir 900 blómaskreytingar bárust, sumar alla leið frá Asíu til Texas, samkvæmt umfjöllun New York Times.

„Þetta er ótrúlegt,“ sagði Basco, sem grét er hann tók á móti samúðarkveðjum frá fjölda manns sem hann kunni engin deili á. Eiginkona hans verður borin til grafar í dag.

Ekkillinn Antonio Basco faðmar að sér bláókunnugan mann í minningarathöfn …
Ekkillinn Antonio Basco faðmar að sér bláókunnugan mann í minningarathöfn um eiginkonu hans. AFP
Röð var út á götu fyrir utan La Paz-trúarmiðstöðina í …
Röð var út á götu fyrir utan La Paz-trúarmiðstöðina í El Paso. AFP
mbl.is