Hafna kröfu bandarískra stjórnvalda

Olíuskipið umdeilda ber nú nafnið Adrian Darya.
Olíuskipið umdeilda ber nú nafnið Adrian Darya. AFP

Stjórnvöld á Gíbraltar hafa hafnað kröfu Bandaríkjanna um hald verði lagt á íranska olíuskipið Grace 1 sem þau kyrrsettu í byrjun júlí vegna gruns um að það væri á leið til Sýrlands í trássi við refsiaðgerðir Evrópusambandsins gegn landinu.

Hæstiréttur Gíbraltar úrskurðaði á fimmtudaginn að aflétta skyldi kyrrsetningunni eftir að írönsk stjórnvöld hefðu veitt tryggingu fyrir því að olíuskipið færi ekki til Sýrlands, en ráðamenn á Gíbraltar segja að sannanir hefðu fundist í skipinu fyrir því að þangað hefði staðið til að sigla. Írönsk stjórnvöld hafa hins vegar hafnað því að áfangastaður olíuskipsins hafi verið Sýrland og að þau hafi veitt slíka tryggingu.

Ráðamenn á Gíbraltar færa þau rök fyrir ákvörðun sinni að þau gætu ekki leitað til dómstóla með kröfu bandarískra stjórnvalda þar sem refsiaðgerðir Bandaríkjanna gegn Íran ættu sér ekki lagastoð innan Evrópusambandsins. Refsiaðgerðir sambandsins gagnvart Íran væru mun minni að umfangi en þær bandarísku.

Stjórnvöld í Íran reikna með að olíuskipið, sem hefur verið endurnefnt Adrian Darya, sigli á brott frá Gíbraltar í kvöld þegar ný áhöfn hefur undirbúið brottför.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert