Hótar að svipta Sýrlendinga hæli

Horst Seehofer.
Horst Seehofer. AFP

„Sá sýrlenski flóttamaður sem fer reglulega í frí til heimalandsins, þaðan sem hann er á flótta, getur ekki með góðu móti sagst verða þar fyrir ofsóknum. Og þá yrðum við að svipta hann stöðu flóttamanns,“ sagði Horst Seehofer við sunnudagsblað þýska blaðsins Bild um helgina. 

Tilefnið er umræða meðal annars þess sama miðils um tíð frí sýrlenskra flóttamanna til heimalands síns frá Þýskalandi, þar sem þeir hafa að staðaldri búsetu og hæli. Seehofer sagði við Bild að fylgst yrði náið með þessum ferðum Sýrlendinganna. „Og ef þetta heldur áfram, munum við senda þá úr landi,“ sagði hann. 

Seehofer er innanríkisráðherra í stjórn Angelu Merkel kanslara. Hann var formaður systurflokks hennar, CSU í Bæjaralandi, 2008-2019, en er það ekki lengur. Ítrekaðir árekstrar hafa orðið á milli hans og Merkel í flóttamannamálum. Hún er frjálslyndari í þeim efnum en hann, samanber margnefnt sumar 2015, þegar Merkel hleypti miklum fjölda flóttamanna inn í landið.

Fyrstu sex mánuði ársins voru mál 62.105 flóttamanna könnuð af hálfu flóttamannastofnunar þýska ríkisins, til að kanna réttmæti stöðu þeirra sem flóttamanna. 39.806 þeirra voru Sýrlendingar. Verulegur minnihluti þeirra sem verða fyrir slíkri endurskoðun eru sendir úr landi á grundvelli niðurstöðu hennar.

Einhverjir 780.000 Sýrlendingar hafa flutt til Þýskalands á síðustu árum, á flótta frá eldfimu ástandi sem þar ríkir vegna borgarastyrjaldarinnar. Áfram er barist í norðvesturhluta landsins, einkum í Idlib-héraði, sem enn er undir stjórn uppreisnarmanna. Hundruð þúsunda manna hafa látið lífið í átökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert