Andrew prins neitar ásökunum

Andrew prins.
Andrew prins. AFP

Andrew Bretaprins segir að sér blöskri ásakanir um kynferðislegt ofbeldi tengt Jeffrey Epstein. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá konungshöllinni eftir að myndskeið var birt en það átti að sýna prinsinn á heimili barnaníðingsins árið 2010. 

Breski fjölmiðillinn Mail on Sunday birti myndskeiðið um helgina og segir Andrew að allar tilraunir til þess að tengja hann við eða saka hann um slíka hegðun viðbjóðslega. Myndskeiðið á að sýna Andrew veifa til konu sem er að yfirgefa heimili Epstein í New York. 

Epstein fannst látinn í fangaklefa sínum 10. ágúst en hann beið réttarhalda þar sem hann var meðal annars ákærður fyrir kynferðislegt ofbeldi gagnvart barni og kynlífsmansal á börnum. 

Dánardómstjóri hefur úrskurðað að um sjálfsvíg hafi verið að ræða. Epstein átti marga þekkta vini svo sem Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. 

Virginia Giuffre, sem áður hét Virginia Roberts, bar vitni um það árið 2016 að hún hafi haft kynmök við Andrew þegar hún var á barnsaldri en vitnisburðinum hefur verið ákaft neitað af konungsfjölskyldunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert