Ferðamenn fangelsaðir fyrir sandþjófnað

Hvítar strendur Sardiníu eru aðdráttarafl fyrir ferðamenn.
Hvítar strendur Sardiníu eru aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Ljósmynd/Wikipedia.org

Franskt par sem var gripið með um 40 kg af sardinískum sandi í bíl sínum kann að eiga allt að sex ára fangelsisdóm yfir höfði sér. Parið segist hafa viljað taka sandinn með sér heim sem „minjagrip“ og að það hafi ekki áttað sig á að um glæp væri að ræða. BBC greinir frá.

Það er harðbannað að fjarlægja hinn rómaða hvíta sand Sardiníu af eyjunni. Íbúar Sardiníu hafa engu að síður árum saman kvartað undan þjófnaði á náttúrugersemum, m.a. hvíta sandinum.

Lögregla fann sandinn, sem tekinn hafði verið af strönd á Chia svæðinu og troðið í 14 plastflöskur, í skottinu á bíl parsins. Það var þá á leið um borð í ferju sem var á leið til Toulon í Frakklandi.

Sandur og steinvölur sem ferðamenn hafa sett á plastflöskur.
Sandur og steinvölur sem ferðamenn hafa sett á plastflöskur. Ljósmynd/Lögregla á Sardiníu

Parið á nú yfir höfði sér á milli 1-6 ára fangelsisdóm fyrir brot sitt. Samkvæmt lögum frá 2017 er sala á sandi, steinvölum og skeljum frá Sardiníu ólögleg og felur refsingin almennt í sér sektargreiðslu sem nemur allt að 3.000 evrum (rúmum 414 þúsund kr.)

Árið 1994 var aðgangur að hinni rómuðu bleiku strönd á Budelli eyjunni, norðaustur af Sardiníu bannaður, þar sem áhyggjur voru af framtíð hennar. Yfirvöld hafa engu að síður enn áhyggjur af því að nokkur tonn af sandinum hverfi af eyjunni ár hvert.

„Sendnar strendur eru eitt helsta aðdráttarafl Sardiníu. Að honum stafa tvær ógnir; önnur er vegna veðrunar sem að hluta til er náttúruleg, m.a. vegna hækkandi yfirborðs sjávar af völdum loftslagsbreytinga,“ sagði Sardiníubúinn Pierluigi Cocco. „Hin er sandþjófnaður ferðamanna.“

Þó fæstir ferðamenn grafi upp 40 kg, er töluvert um að ferðamenn sem flestir eru evrópskir setji sand á flösku og selji svo á netuppboði.

mbl.is