Fann myndbönd frá síðustu andartökunum

Richard Ragland drukknaði í vatninu árið 2017 og á dögunum …
Richard Ragland drukknaði í vatninu árið 2017 og á dögunum fannst GoPro-vélin sem hann hafði haft með í för á síðustu stundum lífs síns. Skjáskot/WSBTV

Kafari fann á botni vatns í þjóðgarði í Tennessee GoPro-myndavél Richards Ragland nokkurs, ungs manns sem drukknaði þar fyrir tveimur árum. Á minniskorti vélarinnar voru myndbönd sem hann tók á síðustu stundum lífs síns. Foreldrar hans hafa velkst í vafa um hvernig andlát hans bar að og það er enn óvitað.

Það var YouTube-stjarnan Rich Aloha sem fann vélina. Þegar hann var á ferð um Foster-fossana í Tennessee nú í sumar hafði honum verið bent á það af skógarverði að ef hann fyndi eitthvað úr förum mannsins á þessu svæði, skyldi hann láta vita. Hann hefði drukknað þarna og eigur hans hefðu ekki allar fundist. 

„Ég trúi því þess vegna að Guð hafi vísað mér veginn að myndavélinni,“ sagði Rich Aloha við fjölmiðla um fundinn. Hann fann myndavélina, tengdi hana við tölvuna og hugsaði: Þetta er maðurinn. Hann hafði upp á fjölskyldu mannsins, heimsótti þau á heimili þeirra og gaf þeim myndböndin, sem öll voru heil, þrátt fyrir tveggja ára dvöl á botni vatnsins. 

„Hann var einstakur ungur maður,“ sögðu foreldrar hans við CNN. Ragland drukknaði árið 2017, aðeins 23 ára að aldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert