Handtekinn eftir tvö ár á flótta

Jonathan Dick, 41 árs, var handtekinn í dag eftir rúmlega …
Jonathan Dick, 41 árs, var handtekinn í dag eftir rúmlega tvö ár á flótta. Hann er grunaður um að hafa orðið yngri bróður sínum, David Dick, að bana þegar hann réðst að honum í verslunarmiðstöð í Melbourne og stakk með sverði. Ljósmynd/Ástralska lögreglan

Einn alræmdasti og mest eftirlýsti flóttamaður Ástralíu, Jonathan Dick, var handtekinn í miðborg Melbourne í dag eftir að til átaka kom milli hans og tveggja manna. 

Dick hefur verið á flótta í rúmlega tvö ár. Hann er grunaður um að hafa orðið bróður sínum, David Dick, að bana með sverði. Í fyrra hét lögreglan 100.000 áströlskum dollurum, eða sem nemur rúmum 8,3 milljónum króna, fyrir upplýsingar sem gætu leitt til handtöku hans. 

David lét lífið eftir árás í verslunarmiðstöð í Melbourne í febrúar 2017. Ráðist var á hann þegar hann steig út úr lyftu í bílakjallara og er bróðir hans grunaður um að standa að baki árásinni en hann sést á upptöku öryggismyndavéla. Lögreglan lýsir árásinni sem hrottafenginni. 

Jonathan hefur verið á lista lögreglu yfir tíu mest eftirlýstu flóttamenn Ástralíu síðastliðin tvö ár og lögregla varaði fólk við því að nálgast hann. 

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að ekki er vitað hvað leiddi til deilna Jonathans og mannanna tveggja, en ástralskir miðlar greinar frá því að Jonathan hafi verið blóðugur þegar hann var leiddur burt í járnum.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert