Olíuskipið farið frá Gíbraltar

AFP

Íranskt olíuskip, sem var kyrrsett á Gíbraltar í júlí vegna gruns um að það væri að flytja olíu til Sýrlands, sigldi í gærkvöldi úr höfn. Dómstóll á Gíbraltar komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að ekki væri heimild fyrir kyrrsetningu skipsins en bandarísk yfirvöld höfðu óskað eftir kyrrsetningunni.

Eftirlit með skipaumferð sýnir að skipið, Grace 1, siglir í austurátt og samkvæmt tilkynningu stefnir það á Kalamata í Grikklandi. 

Yfirvöld í Íran greindu frá því í dag að þau hafi varað bandarísk yfirvöld við því að reyna að stöðva skipið á nýjan leik. Talsmaður utanríkisráðuneytisins, Abbas Mousavi, sagði á fréttamannafundi í morgun að Bandaríkjamenn hafi verið varaðir við því að slíkt gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. 

mbl.is