Safnar liði gegn Trump

Scaramucci tilkynnti í síðustu viku að hann væri hættur að …
Scaramucci tilkynnti í síðustu viku að hann væri hættur að styðja Trump. AFP

Anthony Scaramucci, fyrrverandi samskiptastjóri Hvíta hússins, ætlar að safna saman fleira fyrrverandi starfsfólki Donalds Trump í því skyni að fordæma forsetann og koma í veg fyrir endurkjör hans í forsetakosningunum árið 2020.

Scaramucci, sem hafði löngum stutt Trump opinberlega og varið forsetann í fjölmiðlum, tilkynnti í síðustu viku að hann væri hættur að styðja hann.

„Ég er að setja saman hóp fólks sem líður nákvæmlega eins og mér,“ sagði Scaramucci í viðtali á CNN. „Maðurinn er óstabíll. Allir innan Hvíta hússins vita það, allir utan þess vita það. Við skulum sjá hvort við finnum ekki hentugri valkost.“

Jafnframt hvetur Scaramucci fleiri repúblikana til þess að andmæla Trump opinberlega.

mbl.is