Átta morð á stuttum tíma

AFP

Sendiherra Afganistan á Spáni var rændur um helgina í Barcelona samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar en glæpum hefur fjölgað mjög í borginni undanfarin misseri.

Ráðist var á Humayoon Rasaw seint á sunnudagskvöldið þar sem hann var á göngu í miðborginni. Að söng talskonu lögreglunnar í Barcelona var úri hans stolið. Sendiherrann var í Barcelona í tengslum við hátíðarhöld þar sem 100 ára sjálfstæði Afganistan var fagnað. Hann meiddist á fæti en samkvæmt upplýsingum frá sendiráði Afganistan í Madrid eru meiðsl hans ekki alvarleg.

Glæpum hefur fjölgað mjög í Barcelona þar á meðal á útlendinga. Átta morð hafa verið framin í  borginni síðan í júlí en morð hafa hingað til verið fremur fátíð í Barcelona og glæpatíðni hefur yfirleitt verið mjög lág á Spáni. Jafnframt hefur ránum og þjófnuðum fjölgað mjög og beinast oft gegn útlendingum. 

Skráðum þjófnuðum hefur fjölgað mjög og eru fjórfalt algengari nú en fyrir fjórum árum. Á fyrri hluta ársins fjölgaði ránum þar sem ofbeldi er beitt um 31%. 

Í lok júní lést kona sem var hluti af opinberri sendinefnd Suður-Kóreu eftir að hafa fallið og fengið höfuðáverka þegar henni var hrint af þjófi sem stal handtösku hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert