Býður milligöngu í deilunni um Kasmír

Til stendur að Trump fundi með Modi um helgina.
Til stendur að Trump fundi með Modi um helgina. AFP

Bandaríkjaforseti hyggst bjóða fram aðstoð sína með milligöngu í eldfimri deilu Indlands og Pakistans um Kasmír-hérað.

Ríkisstjórn Indlands ákvað snemma í ágúst að afnema sérstöðu síns hluta héraðsins, sem hafði haft töluverða sjálfstjórn samkvæmt 370. grein stjórnarskrár Indlands. Lokað hefur verið fyrir fjarskipti á svæðinu og fleiri en 4.000 hafa verið handteknir.

Donald Trump segist munu bera upp erindið við Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, á fundi þeirra um helgina, en Bandaríkin hafa áður farið þess á leit við hann að koma á friði í Kasmír.

Pakistanar mótmæla ástandinu í Kasmír.
Pakistanar mótmæla ástandinu í Kasmír. AFP

„Kasmír er mjög flókinn staður. Þar ertu með hindúa og þar ertu með múslima og ég myndi ekki segja að þeim kæmi mjög vel saman,“ segir Trump og að hann muni gera sitt besta til að aðstoða við að greiða úr átökum fjandríkjanna, sem bæði búa yfir kjarnorkubúnaði.

Þá er greint frá því á vef BBC að Pakistan hyggist fara með deiluna um Kasmír fyrir Alþjóðadómstólinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert