Lars Larsen látinn

Lars Larsen.
Lars Larsen. AFP

Danski auðkýfingurinn Lars Larsen lést á heimili sínu í Silkeborg í gær, 71 árs að aldri, tveimur mánuðum eftir að hann lét af stjórnarformennsku í verslunarkeðjunni Jysk vegna veikinda.

Larsen var á meðal auðugustu manna Danmerkur. Hann stofnaði Jysk árið 1979 og fyrirtækið færði hratt út kvíarnar. Það rekur nú rúmlega 2.800 verslanir í 52 löndum í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Asíu, m.a. verslanir Rúmfatalagersins á Íslandi. Tekjur keðjunnar nema um 26 milljörðum danskra króna á ári, jafnvirði 480 milljarða íslenskra, skv. ársskýrslu fyrirtækisins.

Skýrt var frá því fyrir tveimur mánuðum að Larsen hefði greinst með lifrarkrabbamein og sonur hans, Jacob Brunsborg, tók þá við stjórnarformennsku í Jysk.

mbl.is