Mannslífum ógnað á altari stjórnmála

AFP

Spænsk stjórnvöld gagnrýna innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, harðlega fyrir að neita 107 flóttamönnum sem eru um borð í björgunarskipi að koma til hafnar á Ítalíu og segja ákvörðun hans vera svívirðu gagnvart mannkyninu.

AFP

Björgunarskipið Open Arms bíður skammt fyrir utan höfn ítölsku eyjunnar Lampedusa eftir heimild til þess að leggjast að en fólkið sem var bjargað um borð hefur verið á skipinu í 18 daga. Sex ríki Evrópusambandsins; Frakkland, Þýskaland, Rúmenía, Portúgal, Lúxemborg og Spánn, hafa boðist til þess að taka við flóttafólkinu en Salvini hefur neitað björgunarskipum að koma til hafnar á Ítalíu en það er hluti af stefnu hans í málefnum flóttafólks. 

AFP

Varnarmálaráðherra Spánar, Margarita Robles, segir að það sem Salvini sé að gera gagnvart Open Arms sé smán gagnvart mannkyninu. Hún segir að Salvini hætti mannslífum í pólitískum tilgangi. 

Seint í gærkvöldi fékk AFP-fréttastofan þær upplýsingar frá áhöfn Open Arms að ítalska strandgæslan hafi heimilað átta manns að koma í land á Lampedusa vegna alvarlegra veikinda. Flóttafólkið er með sár og sýkingar og líkt og meirihluti þeirra sem eru um borð glímir það við áfallastreituröskun. 

AFP

Spænsk yfirvöld greindu frá því á sunnudag að björgunarskipið væri velkomið til Mallorca eftir að áhöfnin taldi siglingu til hafnarborgarinnar Algeciras við Gíbraltarsund of langa. Mallorca er einnig of löng sigling fyrir Open Arms. Skipið er nú 800 metra frá strönd Lampedusa en það tekur þrjá sólarhringa að sigla til Mallorca en eyjan er í þúsund km fjarlægð frá Lampedusa. 

Salvini segir að Ítalía þurfi að bera ósanngjarnar byrðar vegna þess að landið er fyrsti komustaður skipa sem bjarga flóttafólki á leið yfir Miðjarðarhafið. Varaforsætisráðherra Spánar, Carmen Calvo, segir að það sé fullkomlega ólöglegt að loka höfnum lands fyrir björgunarskipinu Open Arms og óskiljanleg ákvörðun. Hún gagnrýnir líka hjálparsamtökin sem reka skipið fyrir að þiggja ekki leyfi spænskra stjórnvalda til að koma þar til hafnar. 

„Við höfum boðið þeim allt sem í okkar valdi stendur því við viljum ekki sjá mannslífum ógnað,“ sagði hún í viðtali við Cadena Ser-útvarpsstöðina. 

Salvini heimilaði á laugardag 27 flóttabörnum sem voru um borð í Open Arms að koma til hafnar.

Undanfarna 18 daga hafa 479 flóttamenn komið til Ítalíu en af þeim komu yfir 100 til Lampedusa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert