Skilnaður á netinu

AFP

Sænskir dómstólar eru að koma á laggirnar stafrænu kerfi þar sem hægt er að sækja um skilnað í stað þess að hjón sem sækja um skilnað þurfi að gera það skriflega og leggja fyrir héraðsdóm. 

„Við viljum draga úr pappírsnotkun eins og við mögulega getum og gera það auðveldara fyrir fólk að fá þjónustu dómstóla,“ segir Lena Nilsson, framkvæmdastjóri upplýsingatæknimála hjá sænska dómstólaráðinu, í viðtali við sænska útvarpið.

Ekki liggur þó nákvæmlega fyrir hvenær verður farið að bjóða upp á þessa stafrænu þjónustu, segir í frétt útvarpsins.

Í Svíþjóð er hægt að ljúka skilnaði hratt og örugglega ef báðir aðilar eru sammála og ekki eru börn yngri en 16 ára á heimilinu. Eins ef hjón hafa ekki búið saman í að minnsta kosti tvö ár. En ef annar aðilinn vill ekki skilja eða hjón eiga börn verður fyrst að sækja um skilnað að borði og sæng og síðan í framhaldinu um lögskilnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert