Ætlaði að brjótast í gegnum framrúðuna

Árásin var tekin upp á myndband innan úr bílnum.
Árásin var tekin upp á myndband innan úr bílnum. Mynd/Skjáskot úr myndbandinu

Jarðýtur á vegum albanskra yfirvalda rifu í dag til grunna veitingastað í eigu manns sem náðist á myndbandi reyna með öllum tiltækum ráðum að stöðva bílaleigubíl spænskra ferðamanna sem höfðu snætt á staðnum.

Myndbandið hefur farið eins og eldur í sinu um netheima.

Einn ferðamannanna tók upp á síma sinn myndband innan úr bílnum þegar maðurinn reyndi að brjóta framrúðuna í bílnum með miklu offorsi á meðan bíllinn var á ferð. Þetta furðulega atvik gerðist um síðustu helgi í strandbænum Porto-Palermo sem er vinsæll ferðamannastaður í suðurhluta Albaníu.

Eigandi veitingastaðarins, Mihal Kokedhima sem er 51 árs, var handtekinn og á yfir höfði sér dóm fyrir að „hóta hópi spænskra ferðamanna öllu illu fyrir litlar sakir”, skemma bílinn þeirra og valda minniháttar meiðslum, að sögn lögreglunnar.

Albanskir fjölmiðlar segja að ferðamennirnir hafi verið óánægðir með þjónustuna sem þeir fengu á veitingastaðnum og fóru þaðan í burtu eftir að eigandinn byrjaði að æsa sig. Kokedhima sagði í dómsal að Spánverjarnir hefðu reynt að yfirgefa staðinn án þess að borga.

Þegar yfirvöld rannsökuðu veitingastaðinn, Panorma, kom í ljós að hann hafði verið byggður án opinbers leyfis fyrir þremur árum síðan, auk þess sem engir skattar höfðu nokkurn tímann verið greiddir.

Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu.
Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu. AFP

Rifinn til grunna með jarðýtum

Í dag var staðurinn rifinn til grunna, meðal annars með jarðýtum. Albönsk yfirvöld hafa beðið spænsku ferðamennina afsökunar og forsætisráðherrann Edi Rama fordæmdi „villimanninn sem réðst gegn spænskum vinum okkar og braut gegn heilögum hefðum albanskrar gestrisni”.

Einn spænsku ferðamannanna birti svar sitt í myndbandi á netinu og sagði að „einn maður sé ekki fulltrúi heillar þjóðar” og lofaði að snúa aftur til landsins einn góðan veðurdag.

Síðan Albanía braust undan kommúnismanum á tíunda áratugnum hefur landið orðið sífellt vinsælli áfangastaður ferðamanna sem leita að ódýrum ævintýraferðum í Evrópu.

mbl.is