Fengu að fara í land

Leikarinn Richard Gere er meðal þeirra sem hafa farið um …
Leikarinn Richard Gere er meðal þeirra sem hafa farið um borð í björgunarskipið en sex ríki ESB vildu taka við fólkinu. AFP

Flóttafólk sem var um borð í björgunarskipinu Open Arms kom að landi á ítölsku eyjunni Lampedusa í nótt eftir að saksóknari fyrirskipaði að hald yrði lagt á skipið og flóttafólkinu, 86 manns, yrði komið í land. 

Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, hafði hafnað beiðni áhafnar Open Arms um að koma að landi með flóttafólkið en það hefur verið um borð í björgunarskipinu í tæpar þrjár vikur. Tugir barna og fólks sem glímir við veikindi höfðu áður fengið að koma í land. Í gær stukku tíu manns frá borði og reyndu að synda í land en var bjargað um borð í varðskip. 

Mótmælt í Barcelona en myndin er af Matteo Salvini, innanríkisráðherra …
Mótmælt í Barcelona en myndin er af Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu. AFP

Undanfarna sex daga hefur björgunarskipið legið við festar skammt frá Lampedusa. Myndskeið hafa verið birt í ítölskum fjölmiðlum sem sýna gleði flóttafólksins þegar því var greint frá því að það fengi að koma til hafnar. Sum þeirra höfðu verið 19 daga um borð í Open Arms eftir að hafa verið bjargað úr brotsjó á leið frá Líbýu til Evrópu. 

Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, boðaði afsögn í gær í mótmælaskyni við ákvörðun Salvini um að leggja fram vantrauststillögu á ítalska þinginu. 

Stofnandi spænsku hjálparsamtakanna Proactiva Open Arms, Oscar Camps, skrifar á Twitter að eftir 19 daga muni þau koma til hafnar á Lampedusa í dag. Lagt verður hald á skipið tímabundið en það er kostnaður sem Open Arms er reiðubúið að greiða til að tryggja að fólkið um borð fái aðstoð. 

Spænsk stjórnvöld sendu í gær af stað herskip til þess að sækja flóttafólkið en dvölin um borð hefur reynt mjög á þolrif fólks og hafa einhverjir reynt að fremja sjálfsvíg um borð auk deilna á milli einstakra flóttamanna. Hjálparsamtökin vöruðu við því að ástandið um borð væri orðið stjórnlaust og margir glímdu við áfallastreituröskun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert