Merkel komin heim — fundar með Johnson

Angela Merkel tjáði hug sinn um Brexit-viðræðurnar á blaðamannafundi í …
Angela Merkel tjáði hug sinn um Brexit-viðræðurnar á blaðamannafundi í Viðey í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Angela Merkel Þýskalandskanslari flaug af landi brott í gær og er komin í vinnuna í Berlín í dag. Hún er að fara að hitta Boris Johnson nýjan forsætisráðherra Breta og ræða við hann útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Johnson fór þess nýlega á leit við Evrópusambandið enn á ný að varnaglinn um landamæri Norður-Írlands og Írlands (e. backstop) yrði tekinn út úr útgöngusamningnum en þeim óskum hefur ekki verið mætt. Að öllu óbreyttu fara Bretar út úr Evrópusambandinu 31. október án samnings.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Merkel var spurð að því á blaðamannafundi í Viðey í gær af þýskum fjölmiðlum hvernig hún hygðist hátta viðræðunum við Johnson í dag og hvernig hún hygðist hindra að gjáin milli Bretlands og Evrópu breikkaði enn frekar. Merkel svaraði að Evrópuríkin væru enn sameinuð í afstöðu sinni, nefnilega þeirri að hægt væri að finna lausn við spurningunni um þennan varnagla, án þess að opna aftur fyrir möguleikann um útgöngusamning.

„Þetta er ekki spurning um annaðhvort eða,“ sagði Merkel, „heldur vinnum við bara öll sameiginlega að því að finna einhverja lausn.“ Frá bæjardyrum ESB séð sé ljóst hvernig málið liggi, Bretland þurfi bara að ákveða hvað það vilji. Krafan um að varnaglinn sé tekinn út úr samningnum sé gömul en við henni verði ekki orðið.

Fundur Johnson og Merkel er ekki talinn munu bera mikinn árangur, sbr. Spiegel og Merkur, þar sem segir í raun að Merkel sé þegar búin að hafna óskum Johnson um afnám ákvæðisins. 

Merkel var á Íslandi í tvo daga og flutti tvisvar ávörp á blaðamannafundum, sem að mestu leyti snerust um loftslagsmál, sjálfbærni og jafnrétti. Hún heimsótti Hellisheiðarvirkjun, ræddi við starfsmenn Orku náttúrunnar, heimsótti Þingvelli, Laugaveg og loks Viðey í gær. Eftir síðastnefndu heimsóknina fór hún heim, fyrst manna út af fundinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert