Metfjöldi skógarelda í Brasilíu

Ólöglegt skógarhögg í Amazon-frumskógi. Þar tíðkast að koma af stað …
Ólöglegt skógarhögg í Amazon-frumskógi. Þar tíðkast að koma af stað skógareldum til að rýma fyrir búfjárrækt. AFP

Metfjöldi skógarelda hefur í ár geisað í regnskógum Brasilíu. Þetta kemur fram í gögnum frá Geimrannsóknarstofnun Brasilíu (Inpe) en gervihnattagögn þeirra sýna að umfang skógarelda er 81% meira en á sama tíma í fyrra. 74.000 eldar hafa greinst frá áramótum, sem er met frá því farið var að safna gögnum árið 2013.

Aðeins er vika síðan forseti landsins, Jair Bolsonaro, rak yfirmann stofnunarinnar vegna deilna um framsetningu hennar á staðreyndum um eyðingu regnskóga landsins. Verndarsinnar hafa sagt Bolsonaro standa á sama um skóginn og hefur hann hvatt skógarhöggsmenn og bændur til áframhaldandi nýtingar á regnskógum. Gögn frá NASA, Geimferðastofnun Bandaríkjanna, benda þó til að skógareldar í Amazon, þekktasta regnskógi landsins, séu undir meðaltali síðustu ára en aðrir eldar vegi upp á móti því.

Í frétt BBC segir að skógareldar séu algengir á þurrkatímabilum þar sem aðeins þurfi lítinn neista til að tendra stórt bál. Einnig þekkist að eldum sé vísvitandi komið af stað í þeim tilgangi að ryðja land fyrir búfé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert