Mikil vinna í súginn

Einhver bið verður á fyrsta fundi Mette Frederiksen og Donalds …
Einhver bið verður á fyrsta fundi Mette Frederiksen og Donalds Trump. AFP

Aðeins 12 dagar voru í að Donald Trump Bandaríkjaforseti hygðist sækja Danmörku heim er hann tilkynnti fyrirvaralaust að hann hefði ákveðið að seinka heimsókninni um óákveðinn tíma. Danska ríkisútvarpið segir mikinn undirbúning danskra embættismanna þar með hafa farið í súginn (d. hældt i kloakken).

Gríðarleg öryggisgæsla var fyrirhuguð undir forsetann og fylgdarlið hans eins og gengur er fremstu þjóðarleiðtogar heims eru annars vegar, og þá sérstaklega Bandaríkjaforseti. DR tiltekur sérstaklega þrjá aðila sem hafa nú undirbúið sig til einskis: Kastrup-flugvöll, lögregluna og herinn. Fjöldi lögreglumanna úr öllu landinu hafi verið kallaður til aukavinnu í höfuðborginni, en nú hafi því verið aflýst.

Vildi ræða Grænland

Ástæðan sem Trump gefur upp fyrir því að aflýsa fundinum er sú að forsætisráðherrann hafi ekki viljað ræða kaup á Grænlandi. Ekki hafði þó staðið til að ræða það á fundinum. Í yfirlýsingu frá danska forsætisráðuneytinu, sem send var út í lok júlí, segir að þar eigi að ræða utanríkismál, norðurslóðir og viðskipti landanna. Þá stóð til að Trump myndi hitta leiðtoga grænlensku og færeysku heimastjórnanna, en vera má að forsetinn hafi gert sér í hugarlund að viðra nýjasta áhugamál sitt á þeim fundi.

Frá Kulusuk á Grænlandi.
Frá Kulusuk á Grænlandi. AFP

CNN hefur eftir talsmanni dönsku konungshallarinnar að yfirlýsing forsetans sé „algjörlega óvænt“ og að svipaði hafi „aldrei skeð áður“. Von er á yfirlýsingu frá Mette Frederiksen innan skamms.

Steffen Gram, stjórnmálafréttaritari DR, segir ákvörðunina segja mikið um hvernig utanríkisstefnu forsetans er háttað; hún stjórnist fyrst og fremst af tilfinningum. Gram segir Bandaríkin lengi hafa verið mikilvægasta bandamann Dana en framferði forsetans veki upp spurninga. „Ef maður eins og Trump getur fengið leyfi til að haga utanríkisstefnu eftir eigin geðþótta, er þá öruggt fyrir okkur að leggja öll okkar egg í körfu Ameríkana?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert