Myndaði klof yfir 500 kvenna í laumi

Spænska lögreglan lét þessar myndir frá sér fara í dag, …
Spænska lögreglan lét þessar myndir frá sér fara í dag, sem sýna m.a. handtöku mannsins og bakpokann sem hann notaði við þessa ólöglegu iðju sína. AFP

Spænska lögreglan tilkynnti í dag að hún hefði handtekið mann á sextugsaldri sem er grunaður um að hafa tekið upp myndskeið af klofum yfir 500 kvenna eða stúlkna, með því að smeygja myndavél undir pils eða kjóla þeirra. Athæfið er kallað „upskirting“ á enskri tungu.

Maðurinn mun hafa stundað þessa iðju sína í höfuðborginni Madríd um lengri tíma. Hann notaði snjallsíma til verksins, faldi hann ofan í bakpoka sem hann svo kom fyrir á milli fóta kvenna og stúlkna í almenningssamgöngum, stórmörkuðum og víðar.

Að minnsta kosti 283 þessara myndskeiða rötuðu á klámsíðu á netinu, þar sem þau fengu samtals yfir milljón áhorf. Lögregla segir manninn hafa sýnt af sér þráhyggjuhegðun hvað þetta varðaði, tekið konur upp á þennan máta daglega og „reynt að taka upp allar konur sem hann gat“.

Elti konur inn í verslanir

Maðurinn var aðallega að verki í neðanjarðarlestarkerfinu í Madríd, en stundum elti hann konur þaðan og inn í verslanir til þess að halda áfram að taka þær upp, samkvæmt Rafael Fernandez hjá tölvuglæpadeild spænsku lögreglunnar.

Á heimili mannsins, sem er 53 ára gamall kólumbískur ríkisborgari, fundust harðir diskar fullir af upptökum. Lögregla hefur þegar haft uppi á 29 kvennanna og hafa þær lagt fram kærur á hendur honum.

Maðurinn hefur verið kærður fyrir brot á friðhelgi einkalífs, auk barnaníðs, þar sem hluti fórnarlamba hans eru á barnsaldri. Hann hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald og bíður réttarhalda.

„Upskirting“ hefur verið til umtals víðar en á Spáni. Fyrr á þessu ári voru samþykkt lög í Bretlandi þar sem þetta afhæfi, að taka leynilegar upptökur af klofum, var gert sérstaklega refsivert með lögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert