Vilja geta haldið börnum ótímabundið

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Bandaríkjastjórn hefur kynnt nýjar breytingar á útlendingalöggjöf þar sem felld eru úr gildi takmörk á því hve lengi má halda börnum í varðhaldi, hafi þau verið tekin við að reyna að komast yfir landamæri Bandaríkjanna í suðri. Reglugerðina kynnti Kevin McAleenan, starfandi heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, og tekur hún gildi eftir 60 daga.

Að sögn yfirvalda hafa núgildandi tímamörk orðið til þess að fjölga fjölskyldum frá Suður-Ameríku sem reyna að komast yfir landamærin. Segja þau að börn séu notuð sem nokkurs konar „vegabréf“ til að fjölskyldur séu leystar úr varðhaldi eftir stutta dvöl.

„Í dag kynnir ríkisstjórnin mikilvægar reglur sem munu heimila heimavarnaráðuneytinu að halda saman fjökskyldum með viðeigandi hætti og auka heilindi innflytjendakerfisins,“ sagði McAleenan af því tilefni.

Áratugadómafordæmi, þekkt sem Flores-sáttargerðin, takmarkar það hve lengi halda má börnum í varðhaldi, og eftir úrskurð dómstóla 2015 hefur ekki mátt halda börnum lengur en 20 daga. Nú stendur til að heimila að fjölskyldur séu sendar í svokallaðar „fjölskyldubúðir“ svo lengi sem meðferð þeirra mála stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert