Brasilía „útrýmandi framtíðarinnar“

„Hendur umhverfisverndarsinna eru bundnar, og illmennin, mengararnir og landbúnaðurinn, halda …
„Hendur umhverfisverndarsinna eru bundnar, og illmennin, mengararnir og landbúnaðurinn, halda á byssunni.“ AFP

Átta fyrrverandi umhverfisráðherrar Brasilíu hafa tekið höndum saman og fordæma stefnu Jair Bolsonero forseta er varðar umhverfismál og sérstaklega málefni Amazon-regnskógarins.

Stjórnmálakonan og aktívistinn Marina Silva segir Bolsonero breyta Brasilíu í „útrýmanda framtíðarinnar“ með því að draga úr vernd regnskógarins. „Við getum ekki látið það gerast,“ sagði hún.

Sjö aðrir fyrrverandi umhverfisráðherrar Brasilíu hafa gengið til liðs við Silva og myndað þverpólitískan hóp sem fordæmir atlögu Bolsonero að verndaráætlun Amazon-skógarins, en forsetinn hefur hvatt til aukinnar skógareyðingar í nafni landsframleiðslu.

Ráðherrarnir fyrrverandi, sem þjónað hafa mismunandi ríkisstjórnum fyrir mismunandi flokka undanfarin 30 ár, vara við því að núverandi ríkisstjórn Brasilíu vinni kerfisbundið að því að grafa undan umhverfisverndarstefnu landsins.

Ekki annar sentímetri í verndarsvæði fyrir frumbyggja

Bolsonero hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín þess efnis að umhverfisvernd hindri efnahagsvöxt landsins. Þá er hann einnig þekktur góðkunningi málafylgjumönnum landbúnaðar og í einni framboðsræðu sinni gekk hann svo langt að segja að yrði hann kosinn forseti, yrði ekki „einum sentímetra til viðbótar“ varið í verndarsvæði fyrir frumbyggja.

Síðan hann tók við embætti hefur Bolsonero m.a. dregið úr valdi umhverfisráðuneytisins, rekið þrjá háttsetta embættismenn, þ.á.m. ráðherra loftslagsbreytinga, og fært úthlutunarvald vegna verndarsvæða frumbyggja til landbúnaðarráðuneytisins.

 

„Hendur umhverfisverndarsinna eru bundnar, og illmennin, mengararnir og landbúnaðurinn, halda á byssunni,“ segir Carlos Minc, einn fyrrverandi umhverfisráðherranna. „Ég myndi segja að þetta sé orðið að and-umhverfisráðuneytinu.“

Loftslagsbreytingar „aukaatriði“

Umhverfisráðherra ríkisstjórnar Bolsonaro, Ricardo Salles, segir orðræðu forvera sinna þvælu og til þess gerða að koma óorði á brasilísku ríkisstjórnina. Salles hefur áður látið þau orð falla að loftslagsbreytingar séu „aukaatriði“ (e. secondary issue).

Yfir 72.000 skógareldar hafa verið skráðir í Brasilíu það sem af er ári og er það aukning um 85% frá því síðasta. Reykurinn er svo mikill að hann sést á gervitunglamyndum og berst þúsundir kílómetra.

Amazon-regnskógurinn er sá stærsti í heimi og er heimili um milljón frumbyggja, auk milljóna plöntu- og dýrategunda. Hann er stundum kallaður lungu heimsins, en hann bindur gríðarlegt magn kolefnis, og hægir þannig á loftslagsbreytingum, auk þess sem hann framleiðir um 20% alls súrefnis í heiminum. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir vegna eldanna í Amazonas-ríki Brasilíu.

Umfjöllun Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert