Dæmd fyrir alvarlega vanrækslu

Ávextir, grænmeti og heilkorn skipta gríðarlega miklu máli þegar kemur …
Ávextir, grænmeti og heilkorn skipta gríðarlega miklu máli þegar kemur að mataræði. AFP

Ástralskir foreldrar voru dæmdir fyrir alvarlega vanrækslu í Sydney í dag en þau höfðu verið með dóttur sína á ströngu grænkerafæði. Var stúlkan svo vannærð að þegar hún var 19 mánaða leit hún út eins og þriggja mánaða. Foreldrarnir fengu átján mánaða dóm sem þeim verður gert að afplána með samfélagsþjónustu í stað fangelsisvistar, að því er segir í frétt BBC. Stúlkan er þriggja ára gömul í dag

Fæði hennar samanstóð einkum af haframjöli, kartöflum, ristuðu brauði og hrísgrjónum. Þegar hún var tekin af foreldrum sínum snemma á síðasta ári var hún tannlaus.

Að sögn dómarans var stúlkan alvarlega vannærð, allt of létt og lítil miðað við aldur. Þroski hennar var langt frá því sem eðlilegt er þegar yfirvöld gripu til aðgerða.

Stúlkan var tekin af foreldrunum í mars 2018 eftir að móðir hennar hringdi í neyðarlínuna þegar stúlkan missti meðvitund. Þegar bráðaliðar komu á heimilið voru varir barnsins bláar og hendur og fætur ísköld. Að sögn fósturforeldra hennar er hún töluvert á eftir jafnöldrum sínum í þroska. Hún gat ekki setið, ekki talað og ekki borðað sjálf þegar hún kom til þeirra. Hún gat ekki leikið sér með leikföng og hún gat ekki velt sér svo fátt eitt sé nefnt. 

Samkvæmt frétt BBC var móðir stúlkunnar mjög staðföst í fæðuvali fyrir hana og gagnrýndi dómarinn föður stúlkunnar harðlega fyrir að hafa ekki gripið í taumana. 

mbl.is