Fyrsta norska skipið á Norðurpólinn

Áhöfn skipsins KV Svalbard flaggaði við komuna á Norðurpólinn.
Áhöfn skipsins KV Svalbard flaggaði við komuna á Norðurpólinn. Ljósmynd/Norska landhelgisgæslan

Skip frá norsku landhelgisgæslunni komst í sögubækurnar í gær er það varð fyrsta norska skipið til að sigla á Norðurpólinn. Fjölmiðillinn The Independent Barents Observer greinir frá þessu, en skipið KV Svalbard tekur þátt í CAATEX rannsóknarverkefninu um loftslagsbreytingar sem Nansen Environmental and Remote Sensing Centre fer fyrir.

Strandgæslan greindi frá áfanganum á Twitter, en að sögn norsku TV2 sjónvarpsstöðvarinnar sigldi norska skipið eftir slóða sem rússneskur ísbrjótur hafði farið. Hefur kjarnorkuknúni ísbrjóturinn 50 let Pobedy farið fimm ferðir með ferðamenn á Norðurpólinn það sem af er þessu sumri.

Hefur TV2 eftir Geir-Martin Leinebø, skipstjóra KV Svalbard, að áfanganum verði fagnað með „grilli og fótboltaleik“.

Þó þetta sé fyrsta ferð norsk skips á Pólinn hafa önnur skip siglt þangað áður. Fyrst var kjarnorkuknúni í ísbrjóturinn Arktika, sem einnig er rússneskur, en hann fór á Pólinn árið 1977 og fyrst skipa sem ekki eru knúin kjarnorku til að komast á Norðurpólinn var sænski ísbrjóturinn Oden sem fór þangað árið 1991.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert