Kanadamenn vilja ekki fá Rússa í G-8

Chrystia Freeland, utanríkisráðherra Kanada, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á …
Chrystia Freeland, utanríkisráðherra Kanada, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi með fréttamönnum í dag. AFP

Kanadísk stjórnvöld eru mótfallin því að Rússar fái að ganga í G-8 á ný, nema Rússar yfirgefi fyrst Úkraínu. Chrystia Freeland, utanríkisráðherra Kanada, greindi frá þessu í dag er hún hafnaði beiðni Donald Trump Bandaríkjaforseta þessa efnis.

G-7-ríkin funda í Frakklandi nú um helgina. „Ég held við myndum öll með gleði taka á móti því Rússlandi sem sækti um að verða félagi í hópi ríkja sem deila skoðunum. Hópi ríkja sem hafa skuldbundið sig til að fylgja lögum. Hópi lýðræðisríkja,“ sagði Freeland

Áður en af því geti orðið verði rússnesk stjórnvöld hins vegar að sýna að þau vilji gera nákvæmlega það með því að yfirgefa Krímskaga og binda endi á stríðið á Donbass-svæðinu í Úkraínu.

Rússland varð eitt G-8-ríkjanna árið 1997, en var rekið úr samtökunum árið 2014 eftir innrás rússneska hersins í Úkraínu og innlimun Krímskaga. Þá hefur Vladimír Pútín Rússlandsforseti einnig verið sakaður um að fyrirskipa morð á andstæðingum sínum í Bretlandi og öðrum ríkjum Evrópu og fyrir afskipti af bandarísku forsetakosningunum 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert