Kom líklega í veg fyrir fjöldamorð

Bandarískur lögreglubíll fyrir utan Walmart í El Paso, Texas, þar …
Bandarískur lögreglubíll fyrir utan Walmart í El Paso, Texas, þar sem tuttugu voru skotnir til bana. AFP

Hugsanlegt er að hótelstarfsmaður hafi komið í veg fyrir fjöldamorð eftir að hann lét vita af samstarfsmanni sínum sem hafði hótað því að skjóta starfsfólk hótelsins og gesti þess.

Eftir ábendinguna handtók lögreglan í Kaliforníu 37 ára mann sem hafði í fórum sínum kraftmikil vopn og skotfæri á heimili sínu í Los Angeles, að því er BBC greindi frá.  

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur að undanförnu lagt aukna áherslu á að koma í veg fyrir skotárásir sem þessar. Það var ákveðið eftir mannskæðar árásir í El Paso og Dayton þar sem 31 féll í valinn. Síðan þá segjast bandarísk yfirvöld hafa haft spurnir af ýmsum áformum um að gera slíkar árásir en sumar þeirra áttu að beinast gegn minnihlutahópum.

„Guði sé lof“

Að sögn lögreglustjórans Roberts Luna hafði karlmaður haft uppi hótanir gegn samstarfsmanni sínum á Marriott-hótelinu skammt frá flugvellinum í Long Beach.

„Guði sé lof þá ákvað starfsmaðurinn að koma þessum upplýsingum á framfæri,” sagði hann við blaðamenn.

Hann hafði „skýr markmið og getu til að fremja ódæðisverk sem hefði getað endað með því að fjöldi manns hefði slasast,” bætti hann við.

Á meðal fleiri árása sem lögreglan hefur mögulega komið í veg fyrir var ein sem átti að fremja í Miami. Í því tilfelli var maður handtekinn í Seattle eftir að hafa hótað því að myrða fólk af rómönskum uppruna. Hann hafði sent skilaboð til konu þar sem hann lýsti yfir stuðningi við Adolf Hitler og sagðist trúa því að Trump Bandaríkjaforseti myndi „hefja kynþáttastríð og krossferð”.

mbl.is