Með pela í ræðustól þingsins

Hlutverk forseta nýsjálenska þingsins eru misjöfn. Í gær fólust þau …
Hlutverk forseta nýsjálenska þingsins eru misjöfn. Í gær fólust þau meðal annars í að gæta eins mánaðar gamals sonar þingmanns á meðan hann hélt ræðu. Ljósmynd/Twitter

Meðalaldurinn á nýsjálenska þinginu hríðlækkaði um tíma í fyrradag þegar rúmlega mánaðargamall sonur Tāmati Coffey, þingmanns Verkamannaflokksins, fylgdi föður sínum í þingsal. 

Þegar röðin var komin að Coffey í ræðustól bauðst Trevor Mallard, forseti þingsins, til að gæta hins unga Tūtānekai Smith-Coffey og fór vel á með félögunum þar sem Mallard gaf þeim stutta pela. Sjálfur er Mallard þriggja barna faðir og fagnaði hann komu „mjög mikilvægs gests“ í stól forseta þingsins. 

Coffey og eiginmaður hans, Tim Smith, eignuðust soninn í júlí með aðstoð staðgöngumóður. Coffey er nýkominn til baka úr fæðingarorlofi og virtust þingmennirnir almennt ánægðir að fá félagsskap í þingsal, og svona líka fallegan, líkt og þingmaðurinn Gareth Hughes segir í færslu sinni á Twitter. Coffey segist eingöngu hafa fundið fyrir stuðningi frá samstarfsmönnum sínum. 

Tūtānekai er síður en svo fyrsta barnið sem gerir það gott í þingsölum heimsins, en ungabörn hafa almennt fengið góðar viðtökur í þingsölum, ef frá eru talin viðbrögð Piu Kjærs­ga­ard, for­seta danska þjóðþings­ins, þegar Mette Abild­ga­ard, þing­maður Íhalds­flokks­ins mætti með fimm mánaða gamla dótt­ur sína, Esther Marie, í þingsal fyrr á þessu ári.

mbl.is