„Andstyggilegu“ konurnar hans Trump

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, er nýjasta viðbótin í fríðan flokk …
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, er nýjasta viðbótin í fríðan flokk kvenna sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur kallað „andstyggilegar“. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Donald Trump Bandaríkjaforseti virðist hafa dálæti á því að kalla konur andstyggilegar (e. nasty). Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, er nýjasta viðbótin í þennan ört stækkandi hóp kvenna, eftir að hún brást „andstyggilega“ við, að mati Trump, þegar hún neitaði að ræða við hann um mögulega sölu á Grænlandi. 

En hvað gengur forsetanum til? 

Því verður ekki auðsvarað en eitt er víst: Andstyggileg er orð sem hann notar oft og þá sérstaklega um konur. Simone Scheuer-Hansen, blaðamaður Politiken, hefur gert áhugaverða samantekt á andstyggilegu konunum hans Trump“. 

Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex: 

Meg­h­an Markle, eiginkona Harry Bretaprins, var ekki á gestal­ist­an­um hjá henn­ar há­tign þegar for­seti Banda­ríkj­anna, Don­ald Trump, kom í opinbera heimsókn til Bretlands fyrr í sumar. Í aðdraganda forsetakosninganna 2016 sagði Meghan Trump fullan kvenhaturs. Trump var spurður út í ummælin í viðtali í The Sun í aðdraganda heimsóknarinnar. „Ég vissi ekki að hún væri andstyggileg. Ég vona að hún hafi það sem best.“ 

Trump þvertók síðar fyrir að hafa kallað Meghan andstyggilega og sagði að um falsfréttir væri að ræða, þrátt fyrir að ummælin heyrist á upptöku frá blaðamanni The Sun. 

Hillary Clinton, fyrrverandi forsetaframbjóðandi:

Átök einkenndu kosningabaráttuna fyrir bandarísku forsetakosningarnar 2016 og fékk Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi demókrata, oftar en ekki að finna fyrir því. 

Í þriðju kappræðunum í aðdraganda kosninganna kallaði Trump Clinton andstyggilega í kjölfar yfirlýsinga hennar um að hún myndi hækka skatta á þá launahæstu til að leggja meira fé í félagslegan stuðning. „Svo andstyggileg kona,“ skaut Trump þá inn í. Skömmu áður hafði Trump fullyrt að enginn bæri jafn mikla virðingu fyrir konum og hann sjálfur. 

Kamala Harris, fyrrverandi ríkissaksóknari og öldungardeildarþingmaður:

Trump hefur í tvígang kallað öld­unga­deild­arþing­manninn Kamala Harris, sem sæk­ist eft­ir til­nefn­ingu Demó­krata­flokks­ins fyr­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar í Banda­ríkj­un­um á næsta ári, andstyggilega. Nú síðast þegar William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, kom fyrir þingnefnd öldungardeildarþingsins vegna rannsóknar Roberts Mueller. Trump sagði að Harris hefði verið virkilega andstyggileg í spurningu sinni til Barr. 

Kamala Harris, öldungardeildarþingmaður Kaliforníu-ríkis, sæk­ist eft­ir til­nefn­ingu Demó­krata­flokks­ins fyr­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar …
Kamala Harris, öldungardeildarþingmaður Kaliforníu-ríkis, sæk­ist eft­ir til­nefn­ingu Demó­krata­flokks­ins fyr­ir for­seta­kosn­ing­arn­ar í Banda­ríkj­un­um á næsta ári. AFP

Nancy Pelosi, forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings: 

„Andstyggileg, hefnigjörn og hræðileg manneskja.“ Þannig lýsti Trump Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, þegar hún brást við ummælum forsetans þar sem hann sagði fjórum þingmönnum Demókrataflokksins að „fara heim.“ 

Nancy Pelosi, forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings. AFP

Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður:

Bandaríska öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren, eða „Pocahontas“ eins og Trump hefur kallað hana, er heldur ekki í uppáhaldi hjá forsetanum. Hún var meðal þeirra fyrstu sem forsetinn kallaði andstyggilega. Það gerði hann á Twitter í aðdraganda forsetakosninganna 2016. Warren sækist eftir útnefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári og á eflaust eftir að kljást meira við Trump.

Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður Massachusetts-ríkis, sækist eftir tilnefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar …
Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður Massachusetts-ríkis, sækist eftir tilnefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert