Hvað er að gerast í Amazon?

AFP

Þúsundir skógarelda loga í Amazon, stærsta regnskógi heims, um þessar mundir og hafa eldarnir í Amazon í Brasilíu ekki verið fleiri í næstum áratug.

Svæðin sem verst hafa orðið úti vegna skógarelda það sem af er ári eru í ríkjunum Roraima, Acre, Rondônia og Amazonas, en í Amazonas, stærsta ríki Brasilíu, hefur neyðarástandi verið lýst yfir.

Skógareldarnir hafa vakið mikla athygli um heim allan og keppist fræga fólkið, til jafns við almúgann, um að deila myndum af og tjá sig um ástandið í Amazon. Komið hefur í ljós að margar myndanna sem netverjar deila eru raunar gamlar eða jafnvel ekki teknar í Brasilíu.

En hversu slæmt er ástandið í raun og veru? 

Samkvæmt gögnum Geimrannsóknarstofnunar Brasilíu hefur skógareldum fjölgað um 85% frá sama tímabili árið 2018, en samkvæmt opinberum tölum hafa 75.000 skógareldar kviknað það sem af er ári, og meira en helmingur þeirra í Amazon. Á sama tíma í fyrra höfðu 40.000 eldar verið skráðir.

Skógareldar eru algengir á þurrkatímabilinu í Amazon, sem stendur yfir frá júlí og fram í október. Þeir geta kviknað af náttúrulegum sökum, svo sem vegna eldinga, en einnig vegna hreinsunar skóglendis bænda og skógarhöggsmanna í nafni landbúnaðar.

Umhverfissinnar segja stefnu Jair Bolsonero forseta um að kenna, að í henni sé hvatt til skógareyðingar af þessu tagi. Bolsonero hefur hins vegar svarað í sömu mynt og kennt óopinberum samtökum um aukningu skógarelda. Reyndar hefur hann síðan dregið í land og sagst engar sannanir hafa fyrir fullyrðingum sínum þess efnis.

AFP

Reykur frá skógareldunum sem loga í Amazon hefur teygt anga sína víða, jafnvel alla leið til austurstrandar Brasilíu í Atlantshafi, auk þess sem hann hefur valdið myrkri í Sao Paulo, borg í 3.200 kílómetra fjarlægð.

228 milljón tonn koltvísýrings losnað út í andrúmsloftið

Þá hafa eldarnir losað mikið magn koltvísýrings út í andrúmsloftið, eða um 228 milljón tonn það sem af er ári, mesta magn síðan 2010. Þá losa eldarnir einnig mikinn kolsýring, eitraða, lyktarlausa lofttegund sem myndast þegar kolefni brennur í ónógu súrefni, sem dreifst hefur um rómönsku ameríku.

Amazon-regnskógurinn er heimili þriggja milljóna dýra- og plöntutegunda, auk milljón frumbyggja, og gegnir mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, en skógurinn bindur um milljónir tonna kolefna ár hvert.

Þegar tré regnskógarins eru höggvin eða brennd losnar hins vegar kolefnið sem þau bundu aftur út í andrúmsloftið, auk þess sem það gefur augaleið að með færri trjám minnkar geta skógarins til þess að binda kolefni.

Umhverfisstofnun Brasilíu segir að rekja megi aukinn fjölda skógarelda beint til skógareyðingar af ásettu ráði, en Geimrannsóknarstofnun Brasilíu sendi út 10.000 viðvaranir vegna skógareyðingar bara í júlímánuði, og jókst hún um 278% til samanburðar við sama mánuð í fyrra.

Ekki eldur heldur kapítalismi, stendur á þessu skilti.
Ekki eldur heldur kapítalismi, stendur á þessu skilti. AFP

Roramia er það ríki sem hefur séð mesta fjölgun skógarelda, en þeim hefur fjölgað um 141% miðað við meðaltal áranna 2015 til 2018. Í Amazonas hefur þeim fjölgað um 81%, 138% í Acre og 115% í Rondônia.

Losun koltvísýrings náði hámarki 2004

En þrátt fyrir að skógareldarnir hafi náð hámarki síðastliðinna tíu ára benda gögn frá Geimrannsóknarstofnun Bandaríkjanna, NASA, til þess að fjöldi skógarelda sé nálægt meðaltali síðustu 15 ára, auk þess sem gögn um losun koltvíoxíðs, sem notuð eru til að mæla skógarelda, sýna að losun hafi verið mun meiri á fyrsta áratug 21. aldarinnar og náð hámarki árið 2004 þegar losunin mældist rúmlega 400 milljón tonn.

Þá er Brasilía ekki eina landið sem Amazon-regnskógurinn nær til sem glímir við aukinn fjölda skógarelda þetta árið. T.a.m. hefur skógareldum fjölgað um 114% í Bólivíu, 104% í Perú og 145% í Guyana.

Umfjöllun BBC

mbl.is