Mannúðarhvolpur tekur við af Angelinu Jolie

Mat­væla­áætl­un Sam­einuðu þjóðanna (WFP) hefur nú borist óvenjulegur liðsauki við að vekja athygli á erfiðum aðstöðum rohingja í flóttamannabúðum í Bangladess. Þessi nýi liðsauki gengur á fjórum fótum, er með blautt trýni og dillar skottinu.

Hundruð þúsunda rohingja, sem flúðu aðgerðir hersins í Búrma (Mijanmar) hafast enn við í flóttamannabúðum. Þar eru þeir strandaglópar með litla möguleika  á að geta snúið aftur heim. Flótti þeirra vakti umtalsverða athygli á sínum tíma, en þó hjálparsamtök geri sitt besta við að viðhalda athyglinni, m.a með heimsókn góðgerðarsendiherrans og leikkonunnar Angelinu Jolie, eru augu heimsbyggðarinnar farin að beinast annað.

Seint á síðasta ári tóku nokkrir starfsmenn WFP að sér þriggja vikna gamlan hvolp sem hafði verið skilinn eftir einn á á ströndinni. Hvutti fékk nafnið Foxtrot og segir Gemma Snowdon, samskiptastjóri WFP, að hún hafi fengið þá hugmynd að nýta Foxtrot til góðverka eftir að hún birti mynd af honum á samfélagsmiðla síðum sínum.

 Nú er Foxtrot kominn með sína eigin Instagram síðu þar sem hann er kallaður „mannúðar hvolpur“ (humanitarian_pup) og eru þar inn settar reglulega færslur af því sem hann tekur sér fyrir hendur, eða öllu heldur þófa, í búðunum. Stundum ber starfsmannaspjald sitt frá Sameinuðu þjóðunum á ferð sinni um búðirnar.

„Þegar tíminn líður þá dofnar áhugi á aðstæðum sem þessum,“ segir Snowdown við fréttaveitu AFP. „Foxtrot veitir okkur nýjan áhorfendahóp og heldur sögunni af því hvað er að gerast hér lifandi. Hann er líka mjög vinsæll hjá fjárgjöfum okkar.“

mbl.is